Smit í Melaskóla – samræmd próf í uppnámi

Nemandi í 7. bekk í Melaskóla greindist með COVID-19 í …
Nemandi í 7. bekk í Melaskóla greindist með COVID-19 í gær. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Fjöldi nemenda í Melaskóla hefur verið sendur í sóttkví eftir að nemandi í 7. bekk í skólanum greindist með COVID-19 í gær. Nemendurnir missa því af samræmdu prófunum sem fara fram á fimmtudag og föstudag í næstu viku.

Björgvin Þór Þórhallsson, skólastjóri Melaskóla, sendi foreldrum nemenda í 7. bekk bréf í gær þar sem fram kemur að nemendur verði í sóttkví til fimmtudagsins 24. september og að þá muni sýnataka fara fram. Niðurstöður úr henni berist væntanlega morguninn eftir, eftir að samræmda prófið fer fram.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir í samtali við RÚV að það þurfi að skoða með hvaða hætti nemendum verði gefinn kostur á að taka samræmdu prófin. Það sé mikilvægt til að þeir geti séð hvar þeir standi í náminu.

mbl.is