Þriðjungur smita rakinn til skemmtistaða

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Ljósmynd/Lögreglan

Um þriðjung þeirra kórónuveirusmita sem greindust í gær má rekja til skemmtistaða á höfuðborgarsvæðinu að sögn Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Í gær greindust 75 ný innanlandssmit en aðeins sjö sinnum hafa fleiri smit greinst á einum degi frá upphafi faraldursins og ekki fleiri á einum degi síðan 1. apríl.

Víðir segir að líklega muni ekki nást að tilkynna aðgerðir sóttvarnayfirvalda á upplýsingafundi núna klukkan 14. Þróunin núna sé til skoðunar og ekkert liggi fyrir enn.

„Smit tengd skemmtistöðum eru líklega um þriðjungur af þeim smitum sem greindust í gær,“ segir Víðir í samtali við mbl.is. Hann segir jafnframt að aldurshópurinn sem greinst hefur sé fólk á háskólaaldri.

Fáir smitaðir í handahófsskimun

Í samtali mbl.is við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, fyrr í dag kom fram að enginn hefði greinst smitaður í handahófsskimun. Víðir segist halda að annaðhvort einn eða enginn hafi fundist smitaður í handahófsskimun en segir jafnframt að slíkt hafi áður sést.

„Við höfum séð það áður að fáir eða enginn séu að smitast í þessum handahófsskimunum.“

Gefur það ekki tilefni til bjartsýni?

„Það má örugglega túlka það þannig. Við höfum svosem séð þetta áður og eðlilega er það svo að þegar smit eru að mestu leyti bundin við einn aldurshóp sjáum við færri smit hjá örðum hópum,“ segir Víðir.

Í gær voru 828 sýni tekin í sóttkvíar- og handahófsskimun. 

Aðgerðir ekki tilkynntar á eftir

Víðir segir að ekki liggi enn fyrir hvort aðgerðir verði hertar eða ekki og það muni líklega ekki liggja fyrir á upplýsingafundi almannavarna sem hefst klukkan 14 í dag.

„Það liggur ekkert fyrir enn. Þetta er allt til skoðunar eins og er.“

mbl.is