Tommi í framboð til Alþingis

Tómas Tómasson í Hamborgarabúllunni.
Tómas Tómasson í Hamborgarabúllunni. mbl.is/Árni Sæberg

Tomas Tómasson, gjarnan kenndur við Tommahamborgara, stefnir á framboð í komandi alþingiskosningum. Það mun hann gera sem liðsmaður Flokks fólksins. „Ég skal viðurkenna að ég hef enga reynslu af stjórnmálum og pólitík en einhvers staðar verður maður að byrja,“ skrifar Tómas um ákvörðun sína.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, greinir í pistli sínum á miðopnu Morgunblaðsins í dag frá því að Tommi sé genginn til liðs við flokkinn.

Tómas hefur í áratugi verið einn þekktasti veitingamaður landsins. Hann hefur auk Tommahamborgara meðal annars rekið veitingahús á Sprengisandi, Hard Rock, Hótel Borg og skemmtistaðinn Ömmu Lú. Hann leit yfir farinn veg í samtali við ViðskiptaMoggann í júlí.

Gagnrýndi hann þar meðal annars Dag B. Eggertsson borgarstjóra sem hefði valið sér rangt hlutverk í lífinu og þar með haldið hæfari manni frá starfinu.

Horfir til Biden

Nú hefur Tómas, á áttræðisaldri, ákveðið að gefa kost á sér í stjórnmálin.

Tómas skýrði frá þessu í einum af reglulegum pistlum sínum á vef Eiríks Jónssonar blaðamanns og skrifaði þar meðal annars:

„Þannig er að allar götur frá því að ég opnaði Tomma hamborgara í marz 1981 hefi ég verið ákveðinn að fara út í póitík þegar ég yrði eldri. Það er ekki fyrr en núna um 40 árum síðar sem ég er tilbúinn í slaginn. Þess vegna hefi ég gengið til liðs við Flokk fólksins og stefni á að taka þátt í næstu kosningum til Alþingis. Þetta er stórt skref og algjör viðsnúningur í mínu lífi orðinn sjötíu og eins árs. Þannig að ég verð sjötíu og tveggja þegar kosið verður. Hef varla meira en eitt skot í byssunni, en jú, Joe Biden er sjötíu og átta, svo afhverju ekki?

Ég skal viðurkenna að ég hefi enga reynslu af stjórnmálum og pólitík en einhvers staðar verður maður að byrja,“ skrifar Tómas.

Útrýma ber fátækt

Tómas rökstyður þá ákvörðun að ganga til liðs við Flokk fólksins með því að vísa til reynslu sinnar af mótlæti en líka áratuga reynslu af atvinnuuppbyggingu.

„Ég vel Flokk fólksins þar sem hann hefur á stefnuskrá ýmislegt sem er mér að skapi. Til dæmis kjör öryrkja, kjör og aðbúnað eldri borgara þar sem ég er nú orðinn eldri borgari sjálfur. Kjör einstæðra foreldra, verandi einstæður faðir. Ég á 13 ára dóttur sem ég læt mér mjög annt um. Svo ég tali nú ekki um erfitt líf móður minnar sem einstæðrar móður. Útrýma fátækt, styðja við bakið á þeim sem minna mega sín og starfa eftir kærleik og almennum góðum gildum,“ skrifar Tómas sem er maður trúaður.

Pistil Tómasar má lesa í heild sinni hér.

mbl.is