Allir skemmtistaðir voru með lokað

Lögreglan þurfti ekki að hafa afskipti af neinum skemmtistað eða …
Lögreglan þurfti ekki að hafa afskipti af neinum skemmtistað eða krá í miðborginni í nótt. mbl.is/Eggert

Allir þeir skemmtistaðir, samkomustaðir og krár sem lögreglan hafði eftirlit með í gær voru lokaðir og þurfti því lögreglan ekki að hafa afskipti af þeim. Almennt voru einnig fáir á veitingahúsum miðborgarinnar og sóttvarnaráðstafanir þar í lagi. Var því ekkert um brot á reglum um sóttvarnir á slíkum stöðum sem lögreglan hefur til rannsóknar eftir kvöldið.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar, en sömu sögu var að segja með föstudagskvöldið og aðfaranótt laugardags. Komu þá engin mál af þessu tagi upp við skoðun lögreglu á um sjötíu stöðum.

Heilbrigðisráðherra féllst á föstudaginn á tillögu sóttvarnalæknis um að loka skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðinu tímabundið í fjóra daga, frá föstudegi til mánudags. Var það gert til að sporna við útbreiðslu Covid-19, en síðustu daga hefur fjöldi smita rokið upp og greindust 75 innanlandssmit í gær. Þá voru tveir lagðir inn á sjúkrahús.

mbl.is