Hælið í nýju hlutverki

María Pálsdóttir lét draum sinn rætast og opnaði safn og …
María Pálsdóttir lét draum sinn rætast og opnaði safn og kaffihús á æskuslóðum sínum í Eyjafirði. Hún tekur á móti gestum í gömlum hjúkrunarkonubúningi. mbl.is/Ásdís

Ég er héðan frá Reykhúsum sem er bærinn hér utan í þorpinu,“ segir María Pálsdóttir, leikkona, leiðsögumaður, kennari og eigandi Hælisins við Kristnesspítala. Í húsi sem áður hýsti starfsfólk berklahælisins er nú rekið berklasafn og afar notalegt kaffihús með heimabökuðum kökum og pörtum með reyktum laxi.

„Ég fékk þessa sturluðu hugmynd þegar ég var í heimsókn hjá mömmu og pabba árið 2015. Ég gekk hér um æskustöðvarnar þar sem ég lék mér sem barn. Þegar ég var að alast upp var hér ótrúlega fallegt og öllu svo vel við haldið,“ segir María en svo með breyttu eignarhaldi fór þorpið, eða húsakostur þess, að dala allverulega.

Hælið við Kristnesspítala er bæði berklasafn og kaffihús og tilvalið …
Hælið við Kristnesspítala er bæði berklasafn og kaffihús og tilvalið að rölta fyrst um safnið og fá sér síðan kaffi og kræsingar hjá Maríu. mbl.is/Ásdís

„Það var skellt í lás í þessu húsi fyrir tíu árum og allt fór svolítið að láta á sjá. Álman þar sem sýningin er nú var eitt sinn heimavist ungu einhleypu starfsstúlknanna og hér voru partíin. Sú álma fylltist svo af búslóðum. Ég fór eitthvað að hugsa af hverju einhver gerði ekki eitthvað fyrir þetta þorp, þessi hús? Þá laust niður í kollinn: „Af hverju geri ég það ekki bara sjálf!““ segir María og ákvað að láta verkin tala.

Maríu tókst svo að safna nóg til þess að standsetja kaffihúsið og safnið en þar eru sagðar sögur af missi, sorg, einangrun og örvæntingu en ekki síður von, æðruleysi, lífsþorsta og rómantík. 

Hrúgað í stofurnar

„Hér á Akureyri var verið að höggva fólk við berklum. Það var hrikaleg aðgerð. Þetta var neyðarúrræði; þá var skorið í bakið, í staðdeyfingu, kjötið skrapað af beinunum, og tvö og upp í níu rifbein klippt úr til að leggja lungað saman endanlega og þá náði berklasárið að gróa. Svona voru margir höggnir og lögðust svo inn á Kristnes,“ segir hún og upplýsir blaðamann að berklahælið Kristnes hafi verið opnað árið 1927 en Vífilsstaðir árið 1910.

Fróðlegt er að ganga um safnið, skoða herbergi, myndir og …
Fróðlegt er að ganga um safnið, skoða herbergi, myndir og muni. mbl.is/Ásdís

„Ástandið var hrikalegt og vantaði hæli og því var þetta opnað með pláss fyrir fimmtíu og það fylltist strax, en mest voru áttatíu sjúklingar hér. Þá var hrúgað í stofurnar. Árið 1950 komu lyfin og þá var þetta ekki jafnmikill dauðadómur,“ segir hún og segist hafa fengið mikinn stuðning úr samfélaginu við gerð safnsins. Bæði voru sveitungar, vinir og vandamenn duglegir að gefa vinnu sína og einnig streymdu sögur, myndir og munir frá fólki.

„Fólk er enn að senda mér alls kyns hluti og bréf því það er svo ánægt að finna þessu stað,“ segir María og ákvað að opna einnig kaffihús og er Hælið opið allar helgar frá tvö til sex. Tilvalið er að rölta um safnið og setjast svo niður yfir kaffi og kökusneið.

Hjónabandssæla með rjóma svíkur ekki!
Hjónabandssæla með rjóma svíkur ekki! mbl.is/Ásdís

„Hjónabandssælan er æðisleg og svo er ég með heimsins bestu parta og rúgbrauð sem tengdamóðir mín gerir; skúffuköku, apríkósuköku og vöfflur.“

Flugur á vegg

Fleira er á prjónunum hjá Maríu því henni tókst að sameina leiklistarástríðuna við safnið sitt. Leikritið Tæring var frumsýnt 19. september og verður sýnt í allt haust.

 „Við vorum að frumsýna sviðslistaverkið Tæringu í leikstjórn Völu Ómarsdóttur. Þetta er magnað verk þar sem leiknum senum er blandað við hljóðverk og vídeóverk. Allt unnið upp úr og innblásið af sögu berklanna. Gestir mega bara vera tíu í senn og eru þeir leiddir um Hælið, í gegnum verkið. Það verða tvær sýningar á dag, fimmtudaga, föstudaga og laugardaga. Þetta verður dásamlegt,“ segir María sem er framleiðandi verksins.

„Áhorfendur sitja ekki, heldur eru eins og flugur á vegg.“

Víða á safninu má sjá gamlar ljósmyndir. Hér stilla starfsstúlkur …
Víða á safninu má sjá gamlar ljósmyndir. Hér stilla starfsstúlkur sér upp fyrir ljósmyndarann, en safnið er einmitt í álmu sem eitt sinn hýsti starfsstúlkur. mbl.is/Ásdís

Ítarlegra viðtal er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 





Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert