Sjógangurinn reif með sér stóra steina og nýlagt torf

Sjógangurinn í gærkvöldi skolaði stórum steinum vel upp á land …
Sjógangurinn í gærkvöldi skolaði stórum steinum vel upp á land og reif upp nýlagt torf. Hreinsunarstarf mun fara fram í dag. Ljósmynd/Aðsend


Starfsmenn hverfisstöðvarinnar á Fiskislóð hafa unnið á fullu frá því snemma í morgun við að hleypa úr og hreinsa niðurföll eftir mikinn sjógang á Eiðsgranda í gærkvöldi. Skullu stórar öldur á sjóvarnargarðinum, en í gær var hátt sjávarfall og talsverður vindur.

Þorgrímur Hallgrímsson, rekstrarstjóri á hverfisstöðinni, segir í samtali við mbl.is að grafa fari fljótlega á staðinn til að hreinsa af götu og gangstéttum. Telur hann að steinar upp að 50 kílóum hafi farið af stað úr garðinum, en það er uppfyllingarefni sem er á milli stærri steina í varnargarðinum.

Það þarf að endurleggja allt torfið

Spurður út í hreinsunarstarf og tjón segir Þorgrímur að verkefnið fram undan sé aðallega að hreinsa. Hins vegar hafi göngustígurinn næst líklega skemmst eitthvað. Þá sé allt torfið sem lagt var með nýja hjólastígnum, sem liggur samsíða göngustígnum, en örlítið fjær sjónum, ónýtt. „Það er allt farið. Það þarf að endurleggja allt torfið,“ segir hann.

Gæti einnig orðið hamagangur í kvöld 

Í kvöld verður einnig há sjávarstaða og þá er gert ráð fyrir um 17 m/s. Þorgrímur segir að það kæmi sér ekki á óvart ef það verði talsverður hamagangur þá líka. Hann gerir þó ráð fyrir að hreinsunarstarfi ljúki að mestu í dag, en ef að illa fari í kvöld og nótt þá verði menn mættir aftur út snemma á morgun í hreinsunarstarf að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert