Starfsmenn Fossvogsskóla í sóttkví

Fossvogsskóli.
Fossvogsskóli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir starfsmenn Fossvogsskóla eru nú komnir í sóttkví að ósk smitrakningarteymisins eftir að í ljós kom smit hjá nánum ættingja. Þetta kemur fram í tölvupósti sem foreldrar nemenda í 1.-7. bekk í skólanum fengu frá Ingibjörgu Ýri Pálmadóttur, skólastjóra Fossvogsskóla, fyrr í dag.

Tölvupóstinum var sérstaklega beint til foreldra í 5.-7. bekk þar sem starfsmennirnir sem um ræðir starfa á miðstigi.

Annar starfsmaðurinn var í sjálfskipaðri sóttkví á föstudaginn 18. september og fór í skimun þann dag. Niðurstöður hennar voru neikvæðar fyrir COVID-19. Starfsmaðurinn var í kjölfarið settur í úrvinnslusóttkví fram á næsta föstudag, 25. september, og fer þá aftur í skimun. Hann snýr aftur til vinnu mánudaginn 28. september ef sú skimun reynist einnig neikvæð.

Hinn starfsmaðurinn fékk þær upplýsingar í gær að náinn ættingi væri jákvæður fyrir COVID-19 og var kjölfarið settur í tveggja vikna sóttkví. Reynist hann ekki vera smitaður snýr hann aftur til vinnu 5. október.

„Fossvogsskóli mun reyna eins og kostur er að halda uppi hefðbundnu skólastarfi hjá öllum nemendum. Þó kann að verða röskun á því hjá 6. bekk vegna samræmdra prófa sem eru hjá 7. bekk á fimmtudag og föstudag í þessari viku,“ segir jafnframt í tölvupóstinum.

Skólasetning Fossvogsskóla fór fram utandyra í ágúst svo að foreldrar …
Skólasetning Fossvogsskóla fór fram utandyra í ágúst svo að foreldrar gætu verið viðstaddir. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is