Þrjú mál komin á borð landlæknis og tvö bætast við eftir helgi

Sævar Þór Jónsson lögmaður segir nauðsynlegt að málin verði könnuð …
Sævar Þór Jónsson lögmaður segir nauðsynlegt að málin verði könnuð til hlítar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í það minnsta fimm mál munu fara á borð landlæknis vegna mistaka við leghálsskimun á vegum Krabbameinsfélags Íslands. Þremur málum hefur verið komið áleiðis í vikunni og bætast tvö mál við eftir helgi en öll málin varða konur sem þegar eru látnar.

Þetta staðfestir Sævar Þór Jónsson, lögmaður konu sem hyggst fara í skaðabótamál við Krabba­meins­fé­lag Íslands vegna rangrar niðurstöðu úr leghálsskimun á vegum félagsins.

Nauðsynlegt að skoða mál látinna kvenna

Sævar segir að enn eigi eftir að endurskoða öll sýni sem tilefni er til að endurskoða og gagnrýnir hann framgöngu Krabbameinsfélagsins.

„Það sem stingur mig í þessu er að Krabbameinsfélagið talar um eitt alvarlegt tilvik og það er tilvik umbjóðanda míns sem er með ólæknandi krabbamein. Síðan kemur í ljós að það eru fleiri konur sem eru með alvarlegar frumubreytingar og þær fara í aðgerð vegna þess að þetta mál kom upp. Þá spyr maður sig hvað hefði gerst ef umbjóðandi minn hefði ekki komið fram með þetta mál,“ segir hann.

Telur Sævar nauðsynlegt að litið sé aftur í tímann, um nokkur ár, og tilvik kvenna sem þegar eru látnar vegna hugsanlegra mistaka verði skoðuð.

„Ég held að Krabbameinsfélagið, landlæknir eða heilbrigðisyfirvöld þurfi að kanna það til hlítar, hvort andlát kvenna aftur í tímann megi rekja til mistaka við greiningu,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert