Tólf starfsmenn velferðarsviðs smitaðir

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir mannekluna áhyggjuefni.
Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir mannekluna áhyggjuefni. Ljósmynd/Lögreglan

Tólf starfsmenn sem starfa á velferðarsviði Reykjavíkurborgar hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni. Bárust fregnir af tíu smitum starfsmanna í gær en tvö smit greindust í dag.

Bakvarðasveitin sett í viðbragðsstöðu

Velferðarsvið borgarinnar hefur sett sig í samband við bakvarðasveit velferðarsviðs sökum manneklu vegna smita sem greinst hafa á stofnunum sviðsins og er sveitin viðbragðsstöðu. Hingað til hefur verið gripið til þess að hafa samband við fyrrverandi starfsmenn íbúðakjarna til þess að leysa þá starfsmenn af sem nú sæta sóttkví. Starfsmenn sem ekki eru í sóttkví vinna einnig aukalega til að sporna við manneklunni.

„Við höfum ekki enn þurft á aðstoð bakvarðasveitarinnar að halda en við höfum heyrt í þeim vegna þessa,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. 55 starfsmenn á velferðarsviði eru í sóttkví.

Mestar áhyggjur af sólarhringsstofnunum

Sex íbúar í íbúðakjörnum Reykjavíkurborgar eru í sóttkví og um 100 starfsmenn hafa farið í skimun en fleiri verða skimaðir næstu daga.

„Við höfum mestar áhyggjur af sólarhringsstofnununum. Við erum að reka 70 sólarhringsstofnanir og þar verðum við að halda órofinni þjónustu. Við getum ekki lokað neinu,“ segir Regína. Mikilvægt sé að starfsmenn sem þekki til íbúanna sinni þeim, þar sem um viðkvæman hóp sé að ræða.

„Í margs konar starfsemi getur nýtt fólk leyst starfsmenn af en það er ekki eins þegar unnið er með einstaklinga með einhverfu og þroskahömlun. Það þarf að passa vel upp á þann hóp,“ segir hún.

Starfsmenn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar eru rúmlega 3 þúsund talsins en auk þess að reka  íbúðakjarna, sambýli og skammtímadvalarheimili fyrir fatlað fullorðið fólk og börn rekur borgin fimm þjónustuíbúðakjarna fyrir aldrað fólk og tvö hjúkrunarheimili auk vistheimila fyrir börn, neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk, starfsþjálfunarstöðvar og dagdvalir.

mbl.is