„Átján ára barátta og niðurstaðan er þessi“

Hjúkrunarfræðingar að störfum. Úr safni.
Hjúkrunarfræðingar að störfum. Úr safni. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

„Við urðum fyrir miklum vonbrigðum og þessi aðalfundur staðfestir það að allir hjúkrunarfræðingarnir eru sammála um þetta,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Aðalfundur Félags hjúkrunarfræðinga fór fram í gær og lýsir í ályktun yfir vonbrigðum með niðurstöðu gerðardóms frá 1. september síðastliðnum, og telur að niðurstaðan sé fjarri því að bæta launasetningu hjúkrunarfræðinga til hækkunar í samræmi við ábyrgð þeirra. 

Dómurinn úrskurðaði að ríkið skuli leggja Land­spít­al­an­um til aukna fjár­muni sem ráðstafa á til að bæta kjör hjúkr­un­ar­fræðinga á grund­velli stofn­ana­samn­ings, alls 900 millj­ón­ir króna á ári frá sept­em­ber þessa árs til loka gild­is­tíma kjara­samn­ings aðila.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir hjúkrunarfræðinga óánægða með …
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir hjúkrunarfræðinga óánægða með úrskurð gerðardóms. mbl.is/Sigurður Bogi

Ríkið skuli á sama hátt leggja öðrum heil­brigðis­stofn­un­um sín­um sem hafa al­menna hjúkr­un­ar­fræðinga í þjón­ustu sinni til aukna fjár­muni sem skal ráðstafað á grund­velli stofn­ana­samn­ings.

„Eftir 18 ára baráttu er niðurstaðan þessi,“ segir Guðbjörg. 

Segir í yfirlýsingu félagsins að aðalfundur FÍH krefjist þess að hjúkrunarfræðingar fái laun í samræmi við menntun, ábyrgð í starfi og framlag þeirra til heilbrigðisþjónustu. Nýfallinn úrskurður gerðardóms bæti ekki þar úr en góð laun hjúkrunarfræðinga bæti samkeppnishæfni íslensks heilbrigðiskerfis um starfskrafta hjúkrunarfræðinga verði auðveldari.

„Íslenskar stofnanir verða þannig betur í stakk búnar til þess að takast á við fyrirsjáanlega aukningu á þörf fyrir heilbrigðisþjónustu á komandi árum,“ segir í lokaorðum yfirlýsingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert