„Ég kenni mér einskis meins“

„Þetta eru smit sem koma utan úr samfélaginu hjá starfsfólki. …
„Þetta eru smit sem koma utan úr samfélaginu hjá starfsfólki. Þó okkar starfsfólk vinni mikið og sé mjög varkárt og ábyrgt þá getur alltaf eitthvað gerst. Þessi veira hefur stundum verið mjög lúmsk og smitast af ótrúlega litlu tilefni þó í önnur skipti sé það alls ekki svo svo hún er býsna óútreiknanleg,“ segir Páll. mbl.is/Golli

„Við teljum að við séum búin að ná tökum á þessu. Það mikilvæga er að enginn sjúklingur hefur sýkst vegna smita starfsfólks,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Tveir klasar smita hafa greinst á meðal starfsfólks spítalans en á annan tug starfsmanna eru í einangrun og um 200 í sóttkví en það er minna en var þegar mest lét í faraldrinum í vor. Frá upphafi faraldurs hafa 900 starfsmenn spítalans þurft að fara í einangrun og/eða sóttkví vegna kórónuveirusmita.

Páll segir að hann hafi áhyggjur af fjölda smita en spítalinn er nú á hættustigi.

„Við settum spítalann á hættustig vegna þess að við töldum að þessar sýkingar starfsfólks gætu truflað starfsemina,“ segir Páll sem er sjálfur í sóttkví en finnur ekki fyrir einkennum og mældist neikvæður í fyrstu skimun.

„Ég kenni mér einskis meins,“ segir Páll.

Ekkert öðruvísi að stýra spítala úr sóttkví

Annar klasi smitanna kom upp á skrifstofu Landspítala og hinn í skurðlæknaþjónustu. Tekist hefur að skipuleggja hana þannig að vaktþjónusta er óbreytt en smitin hafa þó einhver áhrif á valkvæða starfsemi. Engin smit hafa komið upp hjá skjólstæðingum spítalans vegna smita starfsfólks.

250 voru skimaðir í gær, starfsfólk sem hefur tök á því er hvatt til að vinna heima og grímuskylda hefur verið tekin upp á öllum spítalanum. Áður var hún fyrst og fremst í klínískri starfsemi.

„Síðan erum við að breyta reglum varðandi matsali, það er ekki sjálfskömmtun í matsalnum og fólk getur fengið mat sendan upp á deldir,“ segir Páll.

Hvernig er að stýra einum stærsta vinnustað landsins úr sóttkví?

„Það er í sjálfu sér ekkert öðruvísi. Auðvitað get ég ekki farið um og hitt fólk en ég er mikið á fjarfundum og í símanum og stýri þessari starfsemi þannig. Svo er mikið af öflugum stjórnendum og starfsfólki innan spítalans. Þetta er þekkingarvinnustaður og það þarf ekki að handstýra honum frá degi til dags.“

Gerðar breytingar á flakki nema

Starfsmaður sem starfar á sömu hæð og Páll greindist smitaður. Þeir höfðu ekki verið í samskiptum en þó var talið vissara að senda alla sem á hæðinni starfa í sóttkví vegna hættu á snertismiti.

Landspítali er háskólasjúkrahús en eðli náms nema frá Háskóla Íslands er með þeim hætti að nemar fara gjarnan á milli deilda til að sækja sér þekkingar. Spurður hvort flakk nemanna hafi verið takmarkað í faraldrinum segir Páll:

„Landspítali er Háskólasjúkrahús. Við menntum yfir 2.000 nema á hverju ári, það er eitt af okkar mikilvægustu hlutverkum því án þess er engin framtíð í heilbrigðisþjónustu. Við leggjum gríðarlega áherslu á það og það að nemar geti mætt. Í faraldrinum í vor voru gerðar ákveðnar breytingar til að draga úr því að nemar róteruðu á milli deilda, það er verið að skoða hvernig er best að koma því fyrir núna en við leggjum gríðarlega áherslu á menntun nemanna.“

Smitklasana má ekki rekja til nema.

„Þetta eru smit sem koma utan úr samfélaginu hjá starfsfólki. Þó okkar starfsfólk vinni mikið og sé mjög varkárt og ábyrgt þá getur alltaf eitthvað gerst. Þessi veira hefur stundum verið mjög lúmsk og smitast af ótrúlega litlu tilefni þó í önnur skipti sé það alls ekki svo svo hún er býsna óútreiknanleg,“ segir Páll.

Mikill kraftur á göngudeildinni

Mikill fjöldi kórónuveirusmita hefur greinst upp á síðkastið hérlendis. Spurður hvort Landspítalinn búist við meira álagi á næstunni vegna þeirra segir Páll:

„Þó að fólk virðist almennt ekki verða eins veikt eins og í vor má alveg búast við því. Við sjáum að það er vaxandi fjöldi sem Covid-göngudeildin sinnir, enda sinnir hún öllum sem eru sýktir en við erum ekki með neina sem hafa þurft innlögn síðustu daga og erum ekki með neina sem eru flokkaðir rauðir, en slík flokkun merkir yfirvofandi innlögn. Við fylgjumst náið með þessu dag frá degi. Það er mjög mikilvægt að halda utan um og styðja þá einstaklinga sem eru með sýkingu.“

Páll segir að spítalinn sé tilbúinn í að takast á við meira álag vegna COVID-19 ef svo verði.

„Göngudeildin okkar lokaði aldrei. Það er alveg ótrúlegt að sjá kraftinn á göngudeildinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert