Forstjóri Landspítalans í sóttkví

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans. Ljósmynd/Lögreglan

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, og Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður hans, eru bæði komin í sóttkví. Alls eru 150 starfsmenn spítalans í sóttkví og greind smit eru orðin fjórtán talsins.

Þetta segir Anna Sigrún í samtali við mbl.is.

Hún og Páll fóru í veirupróf í gær og þegar niðurstaðan úr þeim lá fyrir um ellefuleytið í gærkvöldi hófu þau sóttkvína. Reiknað er með að þau verði í viku í sóttkví en þau fara í aðra skimun síðar í vikunni.

Aðspurð segir hún að þau starfi bæði heiman frá sér og allt sé „undir kontról“ á sjúkrahúsinu, þó svo að vissulega sé fúlt að vera í sóttkví. Hvorugt þeirra hefur áður verið í sóttkví. 

Anna Sigrún Baldursdóttir.
Anna Sigrún Baldursdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Smitrakning hefur farið fram innanhúss á Landspítalanum og starfsmenn halda áfram að fara í skimun næstu daga. Ekki er ljóst um uppruna smitanna. Einhverjir fara í skimun á heilsugæslunni, m.a. stúdentar sem hafa sinnt kennslu á spítalanum. Um tvö til þrjú hundruð sýni voru tekin í gær og er niðurstaðan ekki komin úr þeim öllum. „Við erum með okkar eigin rakningu og eigin reglur og við erum mjög ströng,“ segir Anna Sigrún. 

Hún segir sóttkvína öðruvísi hjá spítalanum en annars staðar því fólk getur farið í nokkrar tegundir af sóttkví, A, B og C. „Við verðum stundum að kalla inn fólk sem við getum ekki verið án og við getum gert það með ákveðnum skilyrðum,“ segir Anna Sigrún en bæði hún og Páll eru í hefðbundinni sóttkví A. 

„Það skiptir miklu máli að við höfum ekki orðið þess áskynja að sjúklingar hafi smitast vegna samskipta við starfsfólk. Það kemur til af því að við erum með strangar smitvarnir inni á spítalanum í klínískri þjónustu,“ bætir hún við.

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Jón Pétur

Anna Sigrún segir sjúkrahúsið vera vel starfhæft. Farið var í endurskipulagningu vegna smitanna til að tryggja öryggi sjúklinga og halda uppi þjónustu og gekk hún vel.

Hún bendir jafnframt á að viðbragðsstjórn Landspítalans og farsóttanefnd hittist á hverjum degi í hádeginu þar sem staðan er tekin.

mbl.is