Leggjum hér fram alvarlegt refsimál

Torstein Lindquister héraðssaksóknari fyrir setningu réttarhalda í dómsal eitt í …
Torstein Lindquister héraðssaksóknari fyrir setningu réttarhalda í dómsal eitt í Héraðsdómi Austur-Finnmerkur í Vadsø í Noregi í morgun. Ljósmynd/Erik Brenli/iFinnmark

„Við leggjum hér mjög alvarlegt refsimál fyrir réttinn [...] Við skulum hverfa aftur til laugardagsins 27. apríl 2019, snemma morguns,“ sagði Torstein Lindquister héraðssaksóknari í upphafi saksóknarræðu sinnar í máli ákæruvaldsins gegn Gunnari Jóhanni Gunnarssyni í dómsal eitt í Héraðsdómi Austur-Finnmerkur í Vadsø í Noregi rétt í þessu, en áður hafði saksóknari lesið upp ákæruna á hendur sakborningi þar sem honum er gefið að sök að hafa skotið hálfbróður sinn, Gísla Þór Þórarinsson, til bana að morgni téðs dags.

Í sóttvarnaskyni situr fjölmiðlafólk í dómsal númer tvö þangað sem réttarhöldunum er varpað með mynd og hljóði um fjarfundabúnað, en aðrir áhorfendur fylgjast með úr þriðja salnum.

Kåre Skognes héraðsdómari lýsti yfir ljósmyndabanni við réttarhöldin auk banns við myndatökum af aðilum máls í dómsal eða á göngum héraðsdóms. Fengu fjölmiðlamenn þó að tilnefna einn ljósmyndara úr sínum hópi sem myndaði í réttarsalnum áður en réttur var settur og tók Erik Brenli frá iFinnmark að sér það hlutverk.

Kåre Skognes héraðsdómari, fyrir miðju, setur réttarhöldin klukkan níu í …
Kåre Skognes héraðsdómari, fyrir miðju, setur réttarhöldin klukkan níu í morgun að norskum tíma. Gert er ráð fyrir að aðalmeðferð standi í sjö daga. Ljósmynd/Erik Brenli/iFinnmark

„Nei, ég neita, en viðurkenni morð af gáleysi,“ sagði Gunnar Jóhann á íslensku, þegar Skognes innti hann eftir afstöðu hans til höfuðatriðis ákærunnar. Dómtúlkur annast túlkun af norsku á íslensku fyrir Gunnar og af íslensku á norsku fyrir réttinn. Í öllum öðrum ákæruliðum játaði ákærði sök.

Er honum gefið að sök að hafa haldið til heimilis hálfbróður síns, Gísla Þórs, í Mehamn um klukkan fimm að morgni laugardagsins 27. apríl í fyrra með haglabyssu af hlaupvídd 12 ga.

Hafi Gunnar Jóhann, eftir því sem greint er í fyrsta lið ákæru, sem fjallar um manndráp af ásetningi, opnað öryggislás vopnsins og beint því að Gísla Þór. Í kjölfarið hafi komið til átaka milli þeirra hálfbræðra sem lyktaði með því að skot hafi hlaupið af haglabyssunni í læri Gísla Þórs sem í kjölfarið lést af blæðingu.

Hótanir, húsbrot og bílstuldur

Enn fremur er Gunnari Jóhanni, sem var handtekinn sama morgun, gefið að sök að hafa haft í hótunum við Gísla Þór og kærustu hans, Elenu Undeland, „við þær kringumstæður að hótununum var ætlað að vekja alvarlegan ótta“.

Fjalla aðrir liðir ákærunnar um húsbrot á heimili Gísla Þórs, þar sem Gunnari Jóhanni er gefið að sök að hafa farið í heimildarleysi inn í íbúð hálfbróður síns og beðið hans þar, stuld á bifreið Gísla Þórs, sem Gunnari Jóhanni er gefið að sök að hafa ekið frá heimili hálfbróður síns og í átt að Gamvik, og loks að hafa ekið umræddri bifreið undir svo miklum áhrifum áfengis og fíkniefna, að hann teldist ekki hafa getað stjórnað henni örugglega, en vínandamagn í blóði Gunnars Jóhanns mældist, við blóðprufu sem tekin var klukkan 14:58 sama dag, 0,52 prómill og styrkur amfetamíns í blóði 1,595 míkrómól á lítra.

Gunnar Jóhann Gunnarsson lýsti sig sekan um manndráp af gáleysi …
Gunnar Jóhann Gunnarsson lýsti sig sekan um manndráp af gáleysi þegar Skognes dómari spurði hann út í afstöðu hans til sakarefnisins. Lindquister saksóknari ákærir fyrir manndráp af ásetningi auk annarra ákæruatriða. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Lögregla sætti harðri gagnrýni vikurnar eftir atburðinn fyrir að hafa verið lengi á vettvang, en um langan veg var að fara til Mehamn, þurftu lögregluþjónar að ná sér í skotvopn auk þess að aka til Mehamn frá Kjøllefjord sem er um hálftíma akstursleið. Blæddi Gísla Þór út á heimili sínu á meðan, en sjúkraflutningafólki, sem komið var á vettvang, var ekki heimilt að fara inn í íbúðina fyrr en lögregla hefði tryggt vettvanginn.

Aðgangur að skotvopni

Eins heyrðust þær raddir, að lögreglu hefði verið kunnugt um að Gunnar Jóhann hefði aðgang að skotvopni, en Torstein Pettersen, sem fór með stjórn lögreglurannsóknarinnar, þverneitaði því við mbl.is og norska fjölmiðla, að svo hefði verið, Gunnar Jóhann hefði útvegað sér vopnið aðfaranótt 27. apríl.

Bjørn Gulstad, verjandi Gunnars Jóhanns, sagðist í samtali við mbl.is 21. janúar ákaflega ósáttur við að héraðssaksóknari Troms og Finnmerkur ákærði fyrir manndráp af ásetningi þar sem ásetningur Gunnars Jóhanns hefði eingöngu staðið til þess að skjóta hálfbróður sínum skelk í bringu. Gísli Þór hefði þrifið til skotvopnsins í höndum Gunnars Jóhanns og til átaka komið um vopnið. Hefði skotið þá riðið af og höglin hæft Gísla Þór í lærið.

„Hann lýs­ir sig sek­an um mann­dráp af gá­leysi og viður­kenn­ir að hátt­semi hans hafi verið svo óá­byrg að rétt­læti að ákært sé fyr­ir gá­leysi,“ sagði Gulstad við mbl.is.

Húsnæði Héraðsdóms Austur-Finnmerkur í Vadsø, um 6.000 manna bæjarfélagi skammt …
Húsnæði Héraðsdóms Austur-Finnmerkur í Vadsø, um 6.000 manna bæjarfélagi skammt frá landamærum Noregs og Rússlands. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Mette Yvonne Lar­sen, rétt­ar­gæslumaður brotaþola í málinu, sagðist í samtali við mbl.is 31. janúar lítið gefa fyrir gáleysisskýringuna, „...að kalla það slys þegar þú kem­ur heim til [hálf]bróður þíns, reiður út í hann og með hlaðið skot­vopn. Þá máttu ein­fald­lega reikna með því að eitt­hvað ger­ist. Þú kem­ur ekki með hlaðið skot­vopn ef þú ætl­ar ekki að gera neitt,“ sagði Larsen.

Torstein Lindquister sækir, sem fyrr segir, málið fyrir hönd ákæruvaldsins. Aðalmeðferð málsins hefur í tvígang verið frestað, fyrst í desember vegna þess að héraðssaksóknaraembættið taldi ákæruna ófullnægjandi, en í síðara skiptið í mars vegna kórónuveirufaraldursins. Gert er ráð fyrir að aðalmeðferð standi fram til þriðjudags 29. september.

mbl.is