Samræmdum prófum frestað í hið minnsta þremur skólum

Samræmdum könnunarprófum verður frestað í Ingunnarskóla auk Melaskóla og Vesturbæjarskóla.
Samræmdum könnunarprófum verður frestað í Ingunnarskóla auk Melaskóla og Vesturbæjarskóla. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Samræmdum könnunarprófum verður frestað í að minnsta kosti þremur grunnskólum í Reykjavík vegna sóttkvíar nemenda. Um er að ræða Ingunnarskóla, Melaskóla og Vesturbæjarskóla. 

Samdæmdu prófin fara fram á fimmtudag og föstudag. Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, segir að auk skólanna þriggja, þar sem nemendur í sjöunda bekk eru í sóttkví, gæti verið að prófunum verði einnig frestað vegna sóttkvíar nemenda í fjórða bekk í Hvassaleitisskóla. 

Helgi segir prófin verða tekin í október í þeim skólum þar sem nemendur eru í sóttkví. 

Þá segir Helgi að prófin fari fram með hefðbundnum hætti annars staðar. 

„Skólastarfið hefur verið hefðbundið undanfarnar vikur. Allir bara í sínum bekkjum og allt eins og venjulega, við höfum ekki farið í neinar skipulagsbreytingar á skóladeginum í þessari bylgju sem er núna og það er ekki útlit fyrir að það verði. Svo að prófin verða bara hefðbundin nema í þeim skólum þar sem nemendur eru í sóttkví,“ segir Helgi.

mbl.is