Slíðra sverðin eftir lífshættulega árás

Þrjú vitni sögðu brotaþolann hafa haft hamar í hendi í …
Þrjú vitni sögðu brotaþolann hafa haft hamar í hendi í átökum við ákærða. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt sautján ára pilt til tíu mánaða fangelsisvistar, skilorðsbundna til þriggja ára, fyrir að stinga jafnaldra sinn í kviðinn við Jórufell í apríl fyrr á þessu ári. Sá hlaut lífshættulega áverka af stungunni.

Dómur í málinu féll í dag, en þar kemur fram að stungan hafi átt sér stað við átök milli tveggja hverfahópa, þar sem að stofni til hafi verið drengir á fjórtánda og fimmtánda aldursári. Drengirnir tveir, ákærði og brotaþoli, voru þeirra elstir.

Úlfúð hafi verið á milli þessara hópa og þeir eldað saman grátt silfur um nokkra hríð. Svo virðist sem átökin hafi stigmagnast og loks farið algjörlega úr böndunum.

Horft til ungs aldurs drengjanna

Þrjú vitni sögðu brotaþolann hafa haft hamar í hendi í átökum við ákærða. Í dómnum segir að þó flokka megi hamar sem lífshættulegt vopn við ákveðnar aðstæður, sé hnífur mun hættulegri þegar til átaka kemur.

Ákærði hafi þá dregið brotaþola að sér áður en hann stakk hnífnum í hann, og þar með gengið út fyrir mörk leyfilegrar neyðarvarnar.

Við ákvörðun refsingar var meðal annars horft til ungs aldurs drengsins og þess að hann eigi ekki að baki sakaferil. Þá var til þess litið að ákærði og brotaþoli hefðu rætt saman í þinghaldi undir aðalmeðferð málsins, að viðstöddum aðstandendum sínum og dómara í málinu, og ákveðið að slíðra sverðin þannig að ekki kæmi til frekari átaka milli þeirra eða þessara drengjahópa.

900 þúsund í miskabætur

Auk tíu mánaða skilorðsbundinnar refsingar var ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 900 þúsund krónur í miskabætur.

Sömuleiðis skipaði dómurinn honum að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, samtals rúmlega 3,5 milljónir króna.

Alls þarf hann því að inna af hendi rúmlega 4,4 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert