Snævi þakinn Siglufjörður

Siglufjörður var heldur vetrarlegur í morgun.
Siglufjörður var heldur vetrarlegur í morgun. mbl.is/Sigurður Ægisson

Éljagangur hefur verið nokkuð víða á Norðurlandi í nótt. Á utanverðum Tröllaskaga snjóaði niður undir byggð og vöknuðu íbúar Siglufjarðar við bæinn snævi þakinn. 

Samkvæmt veðurfræðingi Veðurstofu Íslands hefur að mestu leyti éljað til fjalla. Á Siglufirði og Ólafsfirði snjóaði niður undir byggð í nótt. 

Áfram er spáð slydduskúrum og éljum á landinu norðanverðu að sögn veðurfræðings. Þá hefur gránað í fjöll suðvestantil á landinu í nótt. 

Vegagerðin hefur varað við hálku eða hálkublettum á fjallvegum á Norðurlandi sem og á Siglufjarðarvegi um Almenninga. Hálka er víða í nágrenni við Mývatn, sem og á veginum um Hófaskarð. Á Hellisheiði er hálka og hitastig um frostmark. Á Vesturlandi og Vestfjörðum er víða snjóþekja, hálka eða hálkublettir. Ófært er um Hrafnseyrarheiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert