Tvisvar flutt­ur á bráðadeild Land­spít­al­ans

Bataferli Kristjáns hefur ekki verið auðvelt en hann virðist hafa …
Bataferli Kristjáns hefur ekki verið auðvelt en hann virðist hafa sloppið við alvarleg eftirköst sjúkdómsins. Þó mun það reyna á, að snúa aftur til vinnu. Ljósmynd/Aðsend

„Vegna þess að þetta er á hraðri uppleið þá hvet ég fólk til að gera það sem það getur til þess að minnka líkur á smiti.  Þetta er raunveruleikinn og þess vegna vil ég miðla því,“ segir Kristján Gunnarsson. Um næstu mánaðamót eru sex mánuðir síðan hann veiktist af kórónuveirunni og við tók krefjandi bataferli sem stendur yfir enn þann daginn í dag.

Kristján deildi sinni baráttu við sjúkdóminn á Facebook, sem byrjaði með tveimur skimunum þar sem bæði sýni voru neikvæð. 

Ég var tvisvar fluttur á bráðadeild Landspítalans. Í seinna skiptið var ég lagður inn á gjörgæslu með mikla öndunarbilun og súrefnisskort og í framhaldi af því settur í öndunarvél í tvær vikur til að styðja við lungnastarfssemina. Samtals var ég á gjörgæslu í 16 daga – bæði í Fossvogi og við Hringbraut. Í öndunarvélinni var mér snúið tvisvar á grúfu í 17 tíma hvort skiptið og lá þannig á maganum (og enninu) í rúminu. Grúfulega hjálpar til við að auka upptöku súrefnis í lungunum og styður þannig við súrefnisbúskap líkamans,“ skrifar Kristján.

Þungbær dvöl á gjörgæslunni

Á gjörgæslunni fékk hann sterk verkjalyf, þar á meðal fentanyl sem getur reynst heilsuhraustum einstaklingum banvænt og sterk svæfingarlyf, auk lyfja til þess að styðja við blóðrás líkamans. Dvölin var ekki léttvæg, hvorki fyrir Kristján né fjölskyldu hans og ættingja, sem upplifðu tvær vikur milli vonar og ótta. Óskar hann engum að lenda í slíku.

Í öndunarvélinni upplifði ég hræðslu, kvíða, óráð, ruglingslegar minningar og martraðir. Mér fannst ég vera í haldi hjá hryðjuverkamönnum og komst hvergi og upplifði að mínir nánustu vissu ekki hvar ég væri. Þetta er algengt hjá sjúklingum í þessari stöðu og er afleiðing hinna bráðu og alvarlegu veikinda og meðferðar á gjörgæsludeild.

Kristján Gunnarsson hefur verið í endurhæfingu í sex mánuði, síðan …
Kristján Gunnarsson hefur verið í endurhæfingu í sex mánuði, síðan hann greindist með kórónuveirusmit. Honum vegnar vel í dag en nokkurn tíma hefur tekið að vinna upp þol og þrek. Ljósmynd/Aðsend

„Meiriháttar mál að skipta um föt“

Af gjörgæslu fór hann í einangrun á lungnadeild Landspítalans og loks í tveggja vikna endurhæfingu á Reykjalund. Lýsir Kristján máttleysi og litlu þoli þegar þangað var komið en að loknum þremur neikvæðum skimunum var hann laus við veiruna og öll líffæri voru heil efgtir gjörgæsluvistina, fyrir utan lungun.

„Lungnastarfssemi tók tíma að lagast, súrefnismettun var ófullnægjandi og hlutfall rauðu og hvítu blóðkornanna í ójafnvægi,“ skrifar Kristján.

Í hinni tveggja vikna meðferð á Reykjalundi lýsir Kristján miklu máttleysi, þrátt fyrir að hann væri sprækari en áður.

„Það var meiriháttar mál að fara í sturtu og skipta um föt. Það var reyndar þannig að þá daga sem ég fór í sturtu þá var ákveðið að ég færi ekki í sjúkraþjálfun til að ofkeyra mig ekki. Einn daginn fór ég í æfingagallabuxur öfugar eftir sturtuferðina en hafði ekki kraft til að laga það – og hjúkrunarfræðingarnir brostu gegnum grímurnar að hollningunni á mér,“ skrifar hann. 

Erfitt að fylgjast með blaðamannafundunum

Eftir tvær vikur var Kristján loks orðinn fær að sjá um sig sjálfur og því útskrifaður af Reykjalundi. Þegar heim var komið sá hann sjálfur um endurhæfingu með gönguferðum, hjólreiðum, og sundi auk þrekæfinga í samráði við sjúkraþjálfara á Reykjalundi.

„Verkefnið var að æfa sig og hvíla sig. Mikilvægast var að fara ekki framúr sér í æfingum og hlusta á líkamann og hvíla sig vel. Ég var svolítið viðkvæmur andlega, átti erfitt með að horfa á daglegu blaðamannafundina um tölfræði um fjölda smitaðra, fjölda á spítala, fjölda á gjörgæslu, fjölda í öndunarvél og ekki síst fjölda látinna. Þá gat ég ómögulega horft á myndina Misery með Kathy Bates og James Caan helgina eftir að ég kom heim. Hún minnti mig alltof mikið á martraðirnar á gjörgæslunni. Eftir á eru þessar martraðir ákaflega spaugilegar en þær voru ömurlegar meðan á stóð. Þær eru trúlega gott efni í grátbroslega smásögu,“ lýsir Kristján.

Þakklátur fyrir að vera á lífi

Eftir að hafa verið frá vinnu í sex mánuði hefur Kristján breytt um forgangsröð, þakkar fyrir að vera á lífi hvern dag og nýtur þess að vera til. Bataferlið hefur gengið vel og virðist Kristján hafa losnað við þau eftirköst sem sjúklingar COVID-19 hafa upplifað eftir batann.

„Þeir sem þekkja textann við What a Wonderful World með Louis Armstrong vita hvað ég er að tala um. Ég veit hvað skiptir máli í lífinu en það eru fjölskyldan, ættingjar, vinir og kunningjar. Ég hef fundið fyrir því síðasta hálfa árið hvað það er stór hópur. Þá er ég afskaplega þakklátur heilbrigðisstarfsfólki fyrir ómetanlega þjónustu, stuðning og umönnun við erfiðar sóttvarnaraðstæður. Þau fá Grímuverðlaunin að mínu mati fyrir frábæra frammistöðu,“ skrifar hann.

Að lokum tekur Kristján fram að hugleiðingarnar séu ekki settar fram sem hræðsluáróður - hann sé að benda á að kórónuveiran sé „dauðans alvara“.

„Hún er skæð og óútreiknanleg. Stundum er hún mjög skæð, eins og í vor. Stundum er hún „veikari“ eins og sl. vikur – sem betur fer. Enginn er óhultur og þetta er engan veginn búið. Eina sem við vitum er að við vitum lítið – þó við vitum meira í dag en í gær – og óvissa er um hvernig morgundagurinn verður.

Förum því að öllu með gát og gerum það sem við sjálf getum til að lágmarka smithættu. Stöndum saman í baráttunni – með hæfilegu bili á milli okkar þó,“ skrifar Kristján í niðurlagi sinnar baráttufrásagnar. 


mbl.is