„Verum varkár og tökum tillit til annarra“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í vor sýndum við hvað í okkur býr, að við getum staðið saman þegar á reynir, okkur sjálfum og samfélaginu öllu til heilla,“ skrifar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í færslu á Facebook, þar sem hann fjallar um þriðju bylgju farsóttarinnar. 

„Í síðustu viku snarfjölgaði smitum á nýjan leik. Nú sem aldrei fyrr er brýnt að hver og einn hugi að sóttvörnum. Munum að þvo okkur vel um hendur, leitumst við að halda nægri fjarlægð á milli fólks og fylgjum öðrum tilmælum yfirvalda. Bestu sóttvarnirnar byrja hjá okkur sjálfum. Í vor sýndum við hvað í okkur býr, að við getum staðið saman þegar á reynir, okkur sjálfum og samfélaginu öllu til heilla. Við skulum reyna að halda okkar daglega lífi í venjulegum skorðum eftir því sem tök eru á, sækja mannamót eins og heimilt er. Verum samt varkár og tökum tillit til annarra,“ skrifar forsetinn. 

Hann segir ennfremur, að í nýrri viku berist uggvænlegar fregnir af fjölgun veirusmita með öllu sem því fylgi, fjölda fólks í sóttkví og alls kyns raski í samfélaginu.

„Í ýmsum skólum og víðar er grímuskylda nú við lýði. Nú er líka beðið um sérhæft lið í bakvarðasveitir rétt eins og í vor. Þá sýndum við þann samtakamátt sem reyndist svo vel. Enn vinna stjórnvöld framar öllu að því sinna frumskyldu sinni, að tryggja líf og heilsu landsmanna. Ég leyfi mér að endurtaka að saman getum við öll orðið að liði með því að huga að eigin sóttvörnum,“ skrifar Guðni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert