38 ný innanlandssmit

Frá sýnatöku vegna kórónuveirunnar.
Frá sýnatöku vegna kórónuveirunnar. Landspítali/Þorkell Þorkelsson

38 kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, þar af 31 úr einkennasýnatökum, 4 í sóttkvíar- og handahófsskimunum og 3 í skimunum á vegum Íslenskrar erfðagreiningar. Af þeim sem greindust var helmingur í sóttkví, eða 19 manns.

Alls er 281 í einangrun og enn eru tveir á sjúkrahúsi. Þetta kemur fram á covid.is.

Nýgengi smita á hverja 100 þúsund íbúa síðustu 14 daga fer úr 59,7 í 68,4 milli daga. 2.283 eru í sóttkví.

Talsvert mikill fjöldi sýna var tekinn í gær, eða hátt í 4.500 og er það mesti fjöldi sýna sem tekinn hefur verið á sólarhring frá upphafi sýnatöku vegna kórónuveirunnar hérlendis. Þar af voru 1.872 einkennasýni og 1.797 í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu. 

Ekkert smit greindist við landamærin eða í síðari skimun vegna komu til landsins.

mbl.is