Allir starfsmenn FÁ í sóttkví

Fjölbrautaskólinn við Ármúla.
Fjölbrautaskólinn við Ármúla. mbl.is/Sigurður Bogi

Allir starfsmenn Fjölbrautaskólans við Ármúla, um eitt hundrað talsins, eru komnir í sóttkví eftir að þrír nemendur og einn starfsmaður greindist með kórónuveiruna.

Á sunnudaginn var greint frá því að tveir nemendur hefðu greinst með veiruna.

Að sögn Kristrúnar Birgisdóttur aðstoðarskólameistara var tekin sú ákvörðun í morgun að setja alla starfsmenn í sóttkví vegna þess að skólinn er hvort sem er lokaður.

Upp kom smit hjá starfsmanni sem hafði umgengist nemendurna og var ákveðið að taka enga frekari áhættu og setja alla starfsmenn í sóttkví. Starfsmaðurinn var í samskiptum við fjóra drengi í litlu rými og hafa þrír þeirra greinst með Covid-19.

Um 900 nemendur eru í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. „Þeir eiga að svo stöddu ekki að fara í sóttkví en þeir eiga að fylgjast með einkennum og hafa samband við Heilsuveru ef eitthvað slíkt kemur upp,“ segir Kristrún og hvetur nemendur einnig til að fylgjast með fréttum á vefsíðu skólans.  

Hún bætir við að starfsmenn skólans hafi átt gott samstarf við smitrakningarteymið vegna málsins.

Sóttkvínni lýkur á föstudaginn og þá fara allir í skimun. Á laugardaginn kemur svo í ljós hvort einhver hefur smitast og þá verður staðan tekin á ný.

mbl.is