Forstjóri heilsugæslunnar í sóttkví

Óskar Reykdalsson.
Óskar Reykdalsson. Ljósmynd/Lögreglan

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, er í sóttkví eftir að hafa farið í fréttaviðtal.

„Ég er alveg frískur. Ég er búinn að fara í eitt próf og það var neikvætt,“ segir hann, spurður út í líðanina.

Stutt er síðan Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn fór í sóttkví eftir að hafa verið í viðtali á Rás 2 en þar kom smit upp hjá starfsmanni. 

Útlit er fyrir að Óskar losni úr sóttkvínni á fimmtudaginn þegar hann fer í sjö daga sýnatökuna.

Hann segir að ágætlega gangi að stjórna heilsugæslunni. Hann sé lokaður inni í herbergi og að hann hafi gott fólk með sér í liði.

Fjögur smit hjá heilsugæslunni

Alls hafa fjórir starfsmenn heilsugæslunnar greinst með Covid-19 og eru þeir því í einangrun, að sögn Óskars. Tíu eru í sóttkví.

Uppfært kl. 12.25:

Í upphaflegu fréttinni kom fram að Óskar hefði smitast eftir að hafa farið í viðtal á Rás 2. Hið rétta er að Óskar fór í viðtal hjá fréttamanni á öðrum fjölmiðli en fréttamaðurinn starfar einnig fyrir RÚV. 

mbl.is