Hlutfallslega færri jákvæðir í einkennasýnatöku

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Þetta er svona aðeins upp og niður eins og við búumst við að sjá, það verða sveiflur milli daga og við förum alltaf varlega í að túlka einstaka breytur, hvort sem þær eru upp á við eða niður. Við þurfum að sjá hvernig þróunin verður,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 

38 innanlandssmit kórónuveiru greindust í gær. Þar af greindist 31 jákvætt sýni í einkennasýnatökum.

„Það sem er jákvætt í þessu er að það var tekið talsvert meira af sýnum í gær heldur en dagana á undan frá einstaklingum sem eru með einkenni, en þó það hafi verið þessi fjölgun voru hlutfallslega færri með covid heldur en hafði verið daginn á undan,“ segir Þórólfur. „Við þurfum að sjá aðeins hvernig þetta þróast í dag og á morgun og þurfum að horfa til lengri tíma.“

Þórólfur segir að meiri eftirspurn hafi verið eftir einkennasýnatökum í gær og að við því hafi verið brugðist í dag með auknum afköstum.

„Við þurfum aðeins að sjá hvernig það verður í dag hvort það verða fleiri sýni frá sjúklingum með einkenni. Um 2% af sjúklingasýnunum í gær sýndu merki um covid þannig að langflest af þeim voru neikvæð, svo það er eitthvað annað í gangi. Það eru aðrar pestir að skjóta upp kollinum.“

Ekkert með Frakka að gera almennt

Einn einstaklingur hefur greinst með annað afbrigði veirunnar. „Þetta eru fyrst og fremst þessir tveir stofnar sem við höfum verið að tala um undanfarið og verið að kljást við,“ segir Þórólfur. Annan stofninn má rekja til ferðamanna sem hingað komu frá Frakklandi og sagði Þórólfur á upplýsingafundi í gær að „Frakkaveiran“ væri yfirgnæfandi.

„Það hafði áður komið fram í fjölmiðlum, þessi tengsl, og þess vegna greip ég nú svona til orða. Þetta hefur ekkert með Frakka almennt að gera. Það koma þessar veirur hér inn og það er kannski ekki aðalatriðið. Eins og ég sagði í gær getum við ekkert sagt til um hvort menn brutu þarna sóttvarnir, en við vitum hins vegar að það gekk eitthvað erfiðlega að fá einstaklingana til þess að fylgja leiðbeiningum, en hversu alvarlegt og mikið það var og hvort það voru virkilega brot á einangrun eða sóttkví þori ég nú ekki að segja um.“

Þórólfur segist ekki sjá ástæðu til þess að herða aðgerðar á þessu stigi. „Ég held að við þurfum að bíða aðeins með það og eiga það uppi í erminni ef okkur sýnist að við séum að missa tökin á þessu.“

Þá sé í skoðun hvort framlengja þurfi aðgerðir, en núgildandi reglur gilda til og með 27. september.

mbl.is