Hönnun framkvæmda hefst fljótlega

ÍAV er að ljúka öðru verkefni sem fyrirtækið tók kað …
ÍAV er að ljúka öðru verkefni sem fyrirtækið tók kað sér á öryggissvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forstjóri ÍAV, Sigurður R. Ragnarsson, gerir ráð fyrir að fljótlega verði hafin vinna við hönnun á framkvæmdum sem fyrirtækið hefur tekið að sér fyrir bandarísk stjórnvöld á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Reynt verði að hefja þær í vetur en það sé háð samþykki verkkaupa en allavega verði vinnan komin í fullan gang á komandi vori. Áætluð verklok eru í febrúar 2023.

Ekki liggur fyrir hvað þarf að bæta við miklum mannskap en Sigurður segir ljóst að verkefnið sé mikilvægt fyrir Suðurnesjabúa þar sem atvinnuleysi sé mikið. Suðurnesin séu heimavöllur ÍAV og fyrirtækinu í hag að ráða heimamenn í störf. Hann getur þess að ÍAV sé að ljúka verki fyrir sama aðila við endurnýjun á flughlöðum og akbrautum svo þetta verk geti orðið  framhald af því.

Verkið felst í hönnun og verkframkvæmdum við þrjú viðfangsefni á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar, það er stækkun á flughlaði, færanlegar gistieiningar og færslu á flughlaði með hættulegan farm.

mbl.is