Ísland tekur þátt í að fjármagna kaup á bóluefni

Ísland og Noregur taka þátt í fjölþjóðasamstarfi með það markmið …
Ísland og Noregur taka þátt í fjölþjóðasamstarfi með það markmið að tryggja lágtekjuþjóðum bóluefnum. AFP

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að taka þátt í samkomulagi sem Norðmenn hafa gert um þátttöku í samstarfi ríkja um að tryggja öllum þjóðum aðgang að bóluefni við COVID-19 (COVAX). Noregur og Ísland leggja í sameiningu fé til verkefnisins sem gerir kleift að fjármagna kaup á allt að tveimur milljónum bóluefnaskammta fyrir lágtekjuþjóðir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkisstjórninni.

Er þetta fjölþjóðasamstarf sem leitt er af Singapúr og Sviss, en markmiðið er að tryggja aðgang að öruggu og skilvirku bóluefni fyrir alla. Önnur þátttökulönd eru eru öll ríki Evrópusambandsins, Ástralía, Bretland, Ísland, Ísrael, Japan, Sádi-Arabía, Nýja Sjáland, Noregur, Katar, Suður-Kórea og Sameinuðu arabísku furstadæmin.

Fram kemur að þátttaka Íslands og Noregs sé liður í samstarfi Evrópuþjóða þar sem aðildarríki Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins leggja sitt af mörkum til að uppfylla það mikilvæga markmið að öllum þjóðum heims verði tryggður aðgangur að bóluefni, óháð efnahag.

Framlag Íslands og Noregs til verkefnisins hljóðar upp á sjö milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 967 milljóna króna, sem jafngildir tveimur milljónum skammta af bóluefni. Þar af standa íslensk stjórnvöld straum af fjármögnun á 100.000 bóluefnisskömmtum. Miðað við það er framlag Íslands um 50 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert