Íslandsstofa sér um ráðstefnuborgina Reykjavík

Um 40 fyrirtæki eiga aðild að félaginu Ráðstefnuborgin Reykjavík, sem …
Um 40 fyrirtæki eiga aðild að félaginu Ráðstefnuborgin Reykjavík, sem stofnað var árið 2012 til að markaðssetja borgina sem áfangastað fyrir fundi og ráðstefnur. mbl.is/Júlíus

Íslandsstofa mun sjá um rekstur markaðsverkefnisins Ráðstefnuborgin Reykjavík (Meet in Reykjavík). Borgarráð hefur samþykkt samning Íslandsstofu, Reykjavíkurborgar, Icelandair og Hörpu þess efnis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsstofu.

Stofnað var til félagsins Meet in Reykjavík árið 2012 í þeim tilgangi að kynna og markaðssetja Reykjavík og Ísland sem áfangastað fyrir fundi, ráðstefnur og fleiri viðburði. Hefur félagið verið rekið sem samvinnuverkefni opinberra aðila og einkaaðila og verður svo áfram. Um 40 fyrirtæki eiga aðild að félaginu.

Arna Schram, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar og stjórnarformaður Meet in Iceland, segir samninginn í takt við vilja borgarinnar að leggja áherslu á fjölþjóðlegt funda- og ráðstefnuhald við frekari uppbyggingu ferðaþjónustu í borginni. Slíkir gestir hafi verið flokkaðir sem betur borgandi gestir; þeir eyði meiru, séu umhverfisvænni og komi frekar utan háannatíma í ferðaþjónustu.

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, segir starfsemi Meet in Reykjavík falla vel að stefnu og starfsemi Íslandsstofu. „Ráðstefnu- og hvataferðaþjónusta er mikilvægur liður í að auka verðmætasköpun í ferðaþjónustu þegar horft er til langs tíma. Áhrif COVID-19 faraldursins komu snemma fram í þessu geira og því miður er ýmislegt sem bendir til þess að hann verði lengur að ná fyrri styrk en önnur ferðaþjónusta. Það er því mikilvægara en nokkru sinni að sameina kraftana,“ er haft eftir honum í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert