Sjálfstæðisflokkur og Framsókn ræða meirihluta

Seyðisfjörður var eitt fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi sem myndar nú …
Seyðisfjörður var eitt fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi sem myndar nú sameinaða sveitarfélagið Múlaþing.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi, hafa ákveðið að taka upp formlegar viðræður með það að markmiði að mynda meirihluta í nýrri sveitarstjórn.

Þetta kemur fram í tilkynningu. 

„Ákvörðunin er tekin í kjölfar óformlegra viðræðna þar sem farið hefur verið yfir helstu málefnaáherslur flokkanna og framtíðarsýn fyrir nýtt sveitarfélag. Að teknu tilliti til  niðurstöðu þeirra viðræðna, þess trausts sem ríkir milli fulltrúa og sameiginlegrar reynslu þeirra af sveitarstjórnarmálum, þ.m.t. í aðdraganda sameiningar sveitarfélaganna, er ákvörðun um formlegar viðræður tekin. Fulltrúar flokkanna eru sammála um mikilvægi þess að málefnasamningur liggi fyrir sem fyrst og að breytingar í stjórnsýslu nýs sveitarfélags gangi fljótt og vel fyrir sig.“

Kosningar til sveitastjórnar fóru fram um síðustu helgi og fékk Sjálfstæðisflokkurinn fjóra fulltrúa kjörna, Austurlistinn þrjá, Framsókn tvo og Miðflokkurinn og Vinstri græn einn fulltrúa hvor. 

Höfðu íbú­ar kosið í leiðbein­andi nafna­könn­un um nafnið Múlaþing fyr­ir sveit­ar­fé­lagið, en um er að ræða sam­einað sveit­ar­fé­lag Fljóts­dals­héraðs, Djúpa­vogs­hrepps, Borg­ar­fjarðar­hrepps og Seyðis­fjarðar­kaupstaðar.

Niður­stöðurn­ar er ekki bind­andi en ný sveitastjórn mun velja sveit­ar­fé­lag­inu nafn.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert