Þjófurinn skildi eftir sig síma

Tilkynnt var um innbrot í tvær bifreiðar á bílastæði við íþróttasvæði þar sem fótboltaleikur fór fram í gærkvöldi. Þjófurinn mun hafa misst síma á vettvangi. 

Fram kemur í dagbók lögreglu að ölvaður maður hafi verið handtekinn síðdegis í gær, grunaður um þjófnað úr verslun. Þýfi fannst í bakpoka mannsins sem var færður á lögreglustöð og var laus að lokinni skýrslutöku. 

Þá var í gærkvöldi tilkynnt um eignarspjöll í austurbæ Reykjavíkur þar sem þrír drengir höfðu brotið rúður í strætóskýli. Afskipti voru höfð af einum drengjanna sem var síðan sóttur af forráðamanni á lögreglustöð. Tilkynning var send til barnaverndar vegna málsins. 

Tilkynnt var um eignarspjöll á fjórða tímanum í morgun þegar rúður í verslun úrsmiðs voru brotnar. Ekki var farið inn í húsnæðið. Vitni sá tvo karlmenn hlaupa frá vettvangi. 

mbl.is