263 umsóknir um styrki úr Matvælasjóði

Kristján Þór Júlíusson ráðherra ásamt Grétu Maríu Grétarsdóttur sem stýrir …
Kristján Þór Júlíusson ráðherra ásamt Grétu Maríu Grétarsdóttur sem stýrir sjóðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls bárust 263 umsóknir um styrki úr nýstofnuðum Matvælasjóði, en umsóknarfrestur var til síðastliðins mánudags. Ráðherra segir um staðfestingu á sókn í íslenskri matvælaframleiðslu að ræða. 

Sjóðurinn hefur 500 milljónir til úthlutunar en næstu skref eru þau að umsóknirnar fara til fagráða sjóðsins sem munu veita umsögn um þær og í kjölfarið mun stjórn sjóðsins gera tillögu til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands. 

Úthlutað er úr fjórum styrktarflokkum, Báru, Afurð, Fjársjóð og Keldu.

„Bára styrkir verkefni á hugmyndastigi og er styrknum ætlað að fleyta hugmynd yfir í verkefni. Alls bárust 126 umsóknir í Báru.

Afurð styrkir verkefni sem komin eru af hugmyndastigi og miða að því móta og þróa afurð og gera hana verðmætari. Alls bárust 50 umsóknir í Afurð.

Kelda styrkir rannsóknarverkefni sem miða að því að skapa nýja þekkingu. Alls bárust 48 umsóknir í Keldu.

Fjársjóður styrkir sókn á markaði. Alls bárust 37 umsóknir í Fjársjóð.“

Staðfesting á sókn í íslenskri matvælaframleiðslu

Haft er eftir Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í tilkynningu að þessi mikli áhugi sé ánægjulegur. 

„Það er frábært að sjá hversu mikill áhugi er á Matvælasjóði og staðfesting á þeirri sókn sem fram undan er í íslenskri matvælaframleiðslu. Með sjóðnum rennum við frekari stoðum undir íslenska matvælaframleiðslu og hvetjum til aukinnar verðmætasköpunar og nýsköpunar“, er haft eftir Kristjáni. 

Frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stofnun sjóðsins var samþykkt á Alþingi í apríl sl. en hlutverk sjóðsins er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum.

„Áhersla er á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu um land allt.  Áætlað er að úthlutun fari fram í lok október eða byrjun nóvember“, segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert