Breytingar þurfi ekki að vera sársaukafullar

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Nýr samstarfssamningur allra flokka í bæjarstjórn á Akureyri leggst vel í Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra. Ásthildur situr ekki í bæjarstjórn en var ráðin faglega í embætti bæjarstjóra við myndun meirihluta árið 2018 og mun sitja áfram undir sameiginlegum meirihluta allra flokka.

Framundan eru miklar hagræðingaraðgerðir í rekstri, en greint var frá því í Morgunblaðinu í morgun að útlit væri fyrir þriggja milljarða króna halla á rekstri bæjarsjóðs á árinu. Þær aðgerðir sem fyrirhugað er að ráðast í eru tíundaðar í samstarfssáttmála flokkanna sem birtur var í gær og er af nógu að taka.

Ásthildur segir samstarf flokkanna í bæjarstjórn hafa gengið mjög vel á kjörtímabilinu og að kjörnir fulltrúar hafi verið samtaka um flest mál. Hún vill þó aðspurð ekki segja til um hvort það kunni að hjálpa til að bæjarstjórinn sitji ekki í bæjarstjórn og sé laus við flokkadrætti.

Auka tekjur og minnka útgjöld

Spurð hvernig henni lítist á að þurfa að ráðast í niðurskurð, segir Ásthildur að allar breytingar geti verið sársaukafullar. „En þær þurfa ekki að vera það ef menn fara rétt að. Bæjarstjórnin hefur sett upp verkefnalista og nú þurfum við að gera sem best úr honum.“

Fjárhagsáætlun bæjarins fyrir næsta ár liggur ekki fyrir, en hennar er að vænta í nóvember. Því segir Ásthildur að ekki sé hægt að segja til um að svo stöddu hversu miklum halla megi gera ráð fyrir á næsta ári, ef einhverjum.

Bæjarstjórn Akureyrar eftir undirritun samstarfssáttmálans í gær.
Bæjarstjórn Akureyrar eftir undirritun samstarfssáttmálans í gær. Ljósmynd/Aðsend

Meðal aðgerða sem nefndar eru í samkomulagi bæjarstjórnar eru að draga úr húsnæðisnotkun sveitarfélagsins með því að samnýta eða selja húsnæði, einfalda stjórnsýslu og sameina svið, endurskoða laun bæjarfulltrúa, bæjarstjóra og sviðsstjóra og meta hvaða ólögbundnu verkefnum á að hætta eða draga úr.

Spurð hvaða aðgerðir Ásthildur telji þýðingarmestar til að rétta út kútnum, segir Ásthildur að stærstu skrefin verði að auka rafræna þjónustu, sem væntanlega skilar sér í uppsögnum, auka tekjur og að losa bæinn undan rekstri öldrunarheimila.  Það síðastnefnda er á áætlun en viðbúið er að reksturinn færist á hendur Heilbrigðisstofnunar Norðurlands um áramót.

Ekkert svigrúm er til að hækka útsvarsprósentu á Akureyri, sem er 14,52% eða í lögbundnu hámarki. Spurð hvort tekjuaukning sveitarfélagsins feli í sér að aðrir skattar verði hækkaðir, segir Ásthildur svo ekki endilega vera. Það verði að koma í ljós. „Það má líka reyna að fjölga íbúum,“ segir hún þegar blaðamaður spyr hvernig eigi að fara að því að auka tekjur öðruvísi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert