Engar áhyggjur af aðhaldsleysi

„Það er ærið verkefni fram undan og þegar fleiri hendur …
„Það er ærið verkefni fram undan og þegar fleiri hendur leggjast á árarnar þá er ég á því að betur muni ganga,“ segir Eva Hrund um samstarfið. mbl.is/Sigurður Bogi

Eva Hrund Einarsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, sem sat í gamla minnihluta Akureyrarbæjar sem nú heyrir sögunni til, hefur mikla trú á að samstarf allra flokka muni hjálpa til við erfiðan rekstur bæjarins og hefur engar áhyggjur af því að skortur verði á aðhaldi nú þegar enginn minnihluti er til staðar. Með breytingunni dreifist ábyrgð og vinna á fleiri hendur, að sögn Evu. 

Eins og mbl.is greindi frá í gær hafa all­ir flokk­ar í bæj­ar­stjórn Ak­ur­eyr­arbæjar komið sér sam­an um að starfa sam­an að stjórn bæj­ar­fé­lags­ins það sem eft­ir lif­ir kjör­tíma­bils­ins.

Eva jánkar því að staða Sjálfstæðisflokksins styrkist við þessa breytingu. „Við erum að taka við formennsku í skipulagsráði, frístundaráði og erum að fara inn í stjórn Fallorku og Menningarfélags Akureyrar.“

Ekki þannig að „allir þurfi að vera sammála

Samstarfssáttmáli á milli flokkanna hefur verið undirritaður og birtur en hann er um margt ólíkur málefnasamningi L-lista, Samfylkingar og Framsóknar sem mynduðu áður meirihluta þó þeir samningurinn og sáttmálinn eigi ýmislegt sameiginlegt. Í samstarfssáttmálanum er stefnt að sjálfbærum rekstri og sóknar á íbúa- og atvinnumarkaði. Þá er því heitið að hagsmunir barna og ungmenna verði settir í forgang og viðkvæmir hópar samfélagsins verði varðir. 

Spurð hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að aðhald muni vanta þegar bæjarstjórnin skiptist ekki í meiri- og minnihluta segir Eva:

„Ég hef engar áhyggjur af því að það verði ekki aðhald. Við erum auðvitað öll með okkar skoðanir og vinnum eftir ákveðnum gildum og stefnum okkar flokka. Við munum passa upp á það. Við höfum bara líka gert samning þess efnis að ef við erum ekki sammála einhverjum málum þá sitjum við hjá í þeim málum og getum bókað um það hvers vegna við sitjum hjá. Þetta er ekki þannig samstarf að allir þurfi að vera sammála um öll mál.“

Eva Hrund Einarsdóttir er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem áður var í …
Eva Hrund Einarsdóttir er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem áður var í minnihluta.

Ekkert annað í stöðunni

Ef áfram verða ólíkar skoðanir í bæjarstjórninni, hvers vegna skiptir þá máli að allir flokkar séu í samstarfi? 

„Í langflestum verkefnum erum við sammála en þetta dreifir líka ábyrgð og verkefnum á fleiri hendur. Það sem við teljum líka vera styrkingu er að bæjarfulltrúar verða formenn í öllum nefndum, það leiðir af sér tengingu í bæjarstjórn úr öllum nefndum. Auðvitað eru alltaf kostir og gallar í stöðunni en ég taldi kostina vera mun fleiri en veikleikana við að fara í svona samstarf. Líka á þessum tímum, þegar rekstrarstaðan er svona erfið og óvissutímar framundan,“ segir Eva. 

„Ef ég hefði ekki trú á því hefði ég ekki farið í þetta samstarf svo ég hef mikla trú á því að þetta samstarf eigi eftir að hjálpa. Það er ærið verkefni fram undan og þegar fleiri hendur leggjast á árarnar þá er ég á því að betur muni ganga. Við höfum unnið vel saman á þessu kjörtímabili. Það ríkir traust á milli okkar og nú er staðan á rekstri bæjarins þannig að ég held að það hafi ekkert annað verið í stöðunni en að allir kæmu að borðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert