Fimm barna faðir fær ekki vinnu á leikskóla

Andy ásamt fjórum af fimm börnum þeirra Heiðu.
Andy ásamt fjórum af fimm börnum þeirra Heiðu. Ljósmynd/Aðsend

Breskur fimm barna faðir sem talar íslensku hefur sótt um störf á leikskólum Reykjavíkurborgar í rúma tvo mánuði, takmörkuð svör fengið og ekkert starf. Unnusta hans segir að það skjóti skökku við að á meðan störf á leikskólum séu auglýst og deildum lokað vegna veikinda starfsmanna fái unnusti hennar lítil sem engin viðbrögð við umsóknum sínum. 

Parið, Heiða Ingimarsdóttir og Andy Morgan, fluttu til Íslands fyrir um tveimur mánuðum síðan en þau hafa verið búsett í Englandi um tíma þar sem Heiða stundaði nám og Andy starfaði í viðskiptalífinu. Andy hefur áður búið hér á landi, samtals í þrjú ár og starfaði hann þá í ferðamannaiðnaðnum. Hann er um fimmtugt og hafði hug á að skipta um starfsvettvang og sækja í skemmtilegt vinnuumhverfi þar sem íslenska væri töluð. Því langar hann helst að fá að starfa á leikskóla.

Á heimili Heiðu og Andys er töluð íslenska, hann hefur sótt þrjú íslenskunámskeið og voru hjónin með íslenska au pair þegar þau bjuggu á Englandi. Auk íslensku og ensku talar Andy frönsku og spænsku. 

„Nú gefur Reykjavíkurborg sig út fyrir það að starfsmennirnir eigi a spegla flóru borgarinnar. Eru engir fjöltyngdir miðaldra karlmenn búsettir í Reykjavíkurborg?“ spyr Heiða í samtali við mbl.is. 

Gefið í skyn að auglýsingarnar væru formsatriði

Þegar Andy fékk ekki nema eitt boð í viðtal eftir að hafa sótt um á fjölmörgum leikskólum ákvað Heiða að hafa samband við borgina. Þar fékk hún ábendingu um að það gæti verið heppilegt fyrir Andy að skrá sig á afleysingastofu Reykjavíkurborgar en í hana geta leikskólar sótt þegar starfsmenn vantar. Það gerði hann en hefur enn ekki fengið nein svör. 

Fjöldi starfa leikskólakennara og leikskólaleiðbeinanda er auglýstur á vef Reykjavíkurborgar. Heiðu var tjáð að mörg þessara starfa væru mönnuð nú þegar og var gefið í skyn að auglýsingarnar væru bara formsatriði. 

„Það er víst þannig að ef þú ert með leiðbeinanda í starfi þarft þú að auglýsa starfið. Ef þú færð ekki menntaða manneskju í starfið þá fær þessi leiðbeinandi annan árs samning. Þá þarf aftur að auglýsa. Ef það fæst enginn í starfið fær leiðbeinandinn framtíðarstarf,“ segir Heiða.

Andy og Heiða á góðri stundu.
Andy og Heiða á góðri stundu. Ljósmynd/Aðsend

Skólinn sagður fullmannaður en starf auglýst

Hún setti inn færslu á Facebook um málið í morgun og fékk þá ábendingu um að deild á leikskóla dóttur þeirra Andys hafi verið lokað vegna veikinda starfsfólks. Það hafi gerst ítrekað og þar er auglýst starf. Andy hafði sótt um starf á þessum sama leikskóla en fengið þau svör að það væri fullmannað. Þegar Heiða spurði leikskólastjórann hvers vegna afleysingastofan væri ekki nýtt í tilfellum sem þessum var henni tjáð að starfsfólk innan hennar vildi ekki hoppa inn í vinnu í einn eða tvo daga. 

„Mér þykir það svolítið undarlegt. Í fyrsta lagi er þetta fólk að bjóða sig fram í afleysingar og í öðru lagi sótti maðurinn minn um hjá þeim og er tilbúinn í að hoppa inn hvenær sem er sama til hversu langs tíma,“ segir Heiða. 

„Fólki virðist vera missaga innan stjórnsýslunni, alveg frá Reykjavíkurborg og niður í stjórnendur leikskóla.“

„Rosalega virkur fimm barna faðir“

Heiða veltir því fyrir sér hvort aldur og kyn Andys sé helsta ástæðan fyrir því að hann fái ekki starf á leikskóla. Þó hann hafi ekki unnið með börnum áður er hann, eins og áður segir fimm barna faðir og eru tvö börn þeirra Heiðu á leikskólaaldri. 

„Þetta er ekki eins og hann sé óvanur börnum,“ segir Heiða. Þau bjuggu í Englandi þegar öllu var skellt í lás þar. Þá fékk Heiða vinnu en Andy var settur á hlutabætur og samkvæmt reglum sem þeim fylgja í Englandi mátti hann ekki vinna. Því sinnti hann börnunum sem fengu ekki að fara í skólann á tímabilinu. 

„Hann tók hitann og þungann af því að fara út með alla, kenna þeim, halda þeim virkum og hafa ofan af fyrir þeim. Við erum með mjög strangar skjáreglur á heimilinu þannig að það þarf að hafa ofan af fyrir þeim. Það er ekki eins og hann sé einhver óvirkur pabbi með eitt barn. Hann er rosalega virkur fimm barna faðir.“

Heiða segir að vegna skorts á svörum sé Andy nú byrjaður að sækja um önnur störf en hann langi mest að vinna á leikskóla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert