Breyttar aðstæður hjá námsmanni í Köben 

Arnaldur Jónsson og Katrín Ólafsdóttir búa í Kaupmannahöfn.
Arnaldur Jónsson og Katrín Ólafsdóttir búa í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Aðsend

Kórónuveirusmitum hefur fjölgað hratt í Danmörku og sóttvarnaaðgerðir hafa í kjölfarið verið hertar. Tilkynnt var fyrir helgi að 454 hefðu greinst með veiruna og hafa aldrei verið fleiri á einum degi. Þá voru 58 á sjúkrahúsi.

Arnaldur Skorri Jónsson er búsettur í Kaupmannahöfn og stundar nám í Asíufræðum við Viðskiptaháskólann, CBS, og Kaupmannahafnarháskóla. Hann segir að kórónuveirufaraldurinn hafi talsverð áhrif á bæði námið og félagslífið. Bæði sé mikið um fjarkennslustundir og minna um persónuleg tengsl en annars væri. „Svo mega ekki vera neinar samkomur á vegum skólans eða honum tengdar. Það er opið á börum og fyrir mánuði var maður duglegur að kíkja út en ekki lengur. Ég hef ekki djammað síðan í mars,“ segir hann.

„Danir eru frekar slakir yfir ástandinu yfirhöfuð en fólk er farið að passa sig meira. Það virða allir tveggja metra regluna. Ég er sjálfur mjög mikið bara í einum hópi og ef maður hittir aðra reynir maður að halda fjarlægð,“ segir Arnaldur sem átti einmitt bókaðan tíma í skimun fyrir helgi. Hann segir það mjög hvetjandi að þurfa ekki að greiða fyrir skimun.

Aðspurður segir Arnaldur að fjölgun smita og hertar reglur hafi hreyft verulega við fólki að undanförnu. „Þetta er í fullum gangi og við vitum ekki hvað gerist. Sumir í kringum mann eru hræddir um framhaldið og óttast það að vera sendir heim úr skólanum. Ég er alla vega viss um að Danir vilja gera allt annað en að þurfa að loka búðunum. Það gengur ekki fyrir hagkerfið.“

Lítið að gera í ferðamannabúðinni

Arnaldur er 23 ára og er á öðru ári í námi sínu. Hann býr með kærustu sinni, hinni tvítugu Katrínu Ólafsdóttur sem starfar í ferðamannabúð. Af skiljanlegum ástæðum hefur verið lítið að gera hjá henni að undanförnu. „Þannig að við erum svolítið að þrauka núna,“ segir Arnaldur. Fyrirhugað er að hann flytji til Kína í janúar vegna námsins og segir hann ómögulegt að sjá fyrir hvort þau áform muni halda.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, kynnti í gær hertar sóttvarnaaðgerðir í landinu. Þær reglur sem hafa undanfarið gilt í Kaupmannahöfn og nágrenni gilda nú um allt land, til að mynda 50 manna samkomubann og krafa um að allir beri grímu á börum, veitingastöðum og skemmtistöðum þar til fólk hefur fengið sæti. Forsætisráðherrann hvatti fólk til að vinna heiman frá ef það á þess kost og forðast almenningssamgöngur á annatímum. Sagði Frederiksen að kórónuveiran greindist nú hjá breiðari aldurshópum en áður og um alla Danmörku.

Sektað ef fólk notar ekki grímu

Arnaldur segir að almennt bregðist fólk vel við tilmælum yfirvalda. Í húsinu sem hann býr í fari til að mynda ekki fleiri en þrír samtímis inn í lyftu. Fólk notar ekki grímu á almannafæri en það er skylt í almenningssamgöngum og á veitingastöðum eins og áður sagði. „Flestir fylgja þessu enda geta þeir annars fengið risasekt. En það er alltaf einhver einn hálfviti sem gerir það ekki.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. september. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert