Sautján ára á 157 km hraða

Lögreglumenn við umferðareftirlit.
Lögreglumenn við umferðareftirlit. Ljósmynd/Lögreglan

Bifreið var stöðvuð á Kringlumýrarbraut upp úr klukkan hálfellefu í gærkvöldi á 157 km hraða á klukkustund en þar er leyfilegur hámarkshraði 80 km/klst.

Ökumaðurinn, sem er aðeins 17 ára, var færður á lögreglustöð þar sem hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.

Málið var afgreitt með aðkomu föður hans og tilkynningu til Barnaverndar, samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Um tíuleytið í gærkvöldi var tilkynnt um ofurölvi mann með vandræði á veitingastað í Kópavogi. Maðurinn er grunaður um eignaspjöll og líkamsárás, auk þess sem hann fór ekki að fyrirmælum lögreglu.  Maðurinn var handtekinn og vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Laust fyrir klukkan hálfeitt í nótt var bifreið stöðvuð á Hringbraut. Ökumaðurinn var kærður fyrir notkun farsíma við akstur.

Nokkrir ökumenn voru einnig stöðvaðir í nótt, grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna

mbl.is