6% atvinnuleysi í ágúst

Áætlað er að 12.400 hafi verið án atvinnu og í …
Áætlað er að 12.400 hafi verið án atvinnu og í atvinnuleit í ágúst. mbl.is/Árni Sæberg

Áætlað er að 208.500 einstaklingar á aldrinum 16-74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði í ágúst 2020, samkvæmt mælingu vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands. Það jafngildir 81,1% atvinnuþátttöku.

Af vinnuaflinu er áætlað að 195.900 hafi verið starfandi en 12.400 án atvinnu og í atvinnuleit. Áætlað hlutfall starfandi af mannfjölda var 76,2% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 6,0%.

Þegar mælingar ágústmánaðar 2020 eru bornar saman við ágústmælingar síðustu tveggja ára sýnir samanburður við ágúst 2019 að atvinnuþátttaka hefur aukist um 1,9 prósentustig milli ára um leið og atvinnuleysi hefur aukist um 1,6 prósentustig.

Meðalfjöldi vinnustunda í ágúst 2020 var 39,5 stundir sem er 2 stundum lægra en í ágúst 2019. Hlutfall utan vinnumarkaðar var 18,9% í ágúst 2020 sem er 1,8 prósentustigi lægra en í ágúst 2019.

Borið saman við ágúst 2018 hefur hlutfall starfandi dregist saman um 4,1 prósentustig og hlutfall atvinnulausra aukist um 3,5 prósentustig ásamt því að meðalfjöldi vinnustunda hefur lækkað úr 41,9 stundum í ágúst 2018 í 39,5 stundir nú í ágúst 2020. Hlutfall utan vinnumarkaðar er 1,2 prósentustigi hærra en í ágúst 2018.

mbl.is