Á þriðja hundrað Íslendinga til Spánar

Flogið verður til Spánar frá Keflavíkurflugvelli 1. október.
Flogið verður til Spánar frá Keflavíkurflugvelli 1. október. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á þriðja hundrað Íslendinga eru á leiðinni til Spánar 1. október með leiguflugi á vegum Spánarheimila og Icelandair. Svo gæti farið að flugvél Icelandair muni bíða á Spáni þangað til flogið verður til baka 16. október.

Spurður út í tilurð flugsins segir Bjarni Sigurðsson, framkvæmdastjóri Spánarheimila, að eftir að flugfélögin fóru að fella niður flug til Spánar vegna Covid-19 og töluðu um að það yrði ekki flogið þangað aftur fyrr en á næsta ári hafi fyrirtækið fundið fyrir mikilli útþrá hjá fólki sem vildi komast í eignirnar sínar á Spáni.

Fengu stærri vél vegna mikils áhuga

Margir hafi spurt hvernig væri best að fara út, til dæmis hvort það væri hægt að millilenda í London. Gerð var áhugakönnun innan viðskiptahóps fyrirtækisins og var áhuginn nægur til að skipuleggja flugferð í samvinnu við Icelandair. Pöntuð var 183 sæta vél en eftir að biðlisti var kominn í hana var vélin stækkuð í 225 sæta. Enn eru nokkur sæti laus í hana, að sögn Bjarna.

„Þetta eru mestmegnis Íslendingar sem eru að fara í sínar eignir á Spáni, í sumarhúsabyggðirnar en eðlilega eru margir að spá og spekulera varðandi aðstæður,“ segir hann og á þar við kórónuveiruna. Hópur Íslendinga sem býr úti á Spáni hefur sömuleiðis bókað flug heim 16. október.

Frá Torrevieja sem er í um 40 mínútna fjarlægð frá …
Frá Torrevieja sem er í um 40 mínútna fjarlægð frá Alicante á Spáni. Ljósmynd/Wikipedia.org

Öruggara en á Íslandi

Stærstu sumarhúsasvæði Íslendinga eru á Torrevieja-svæðinu á Costa Blanca í Alicante. Að sögn Bjarna hafa veirusmitin aldrei náð neinu flugi þar, þrátt fyrir að fregnir hafi borist af miklli aukningu smita á Spáni. Byggðin sé dreifð og fólk sé meira og minna í sínum húsum og bílum. Staðan sé í raun betri en á Íslandi eins og staðan er í dag.

„Það er mjög mikið af Íslendingum nú þegar úti og það fólk er að segja að því finnist það mjög öruggt úti og að það umgangist miklu minna af fólki en það gerir á Íslandi,“ segir hann. Ekki er þörf á sóttkví fyrir þá sem fljúga til Spánar en allir ferðamenn eru hitamældir á landamærunum.

Vélin bíður á flugvellinum 

Spurður nánar út í flugvél Icelandair segir hann að margar vélar flugfélagsins séu í lítilli notkun vegna Covid-19. Lagt er upp með að hún muni bíða á flugvellinum. Það yrði ákveðið öryggi fyrir hópinn úti „ef allt fer í baklás“ varðandi Covid-19. Hugsanlega mun vélin þó fara í önnur verkefni í millitíðinni.

Bjarni segir aðstæðurnar í tengslum við flugið svolítið skondnar því Spánarheimili hafi staðið fyrir „björgunarflugi“ frá Spáni til Íslands í vor. Núna hafi taflið snúist við því núna sé „björgunarflug“ til Spánar á næsta leiti.

mbl.is