ASÍ segir forsendur ekki brostnar

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/ASÍ

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að „mjög alvarleg skilaboð“ yrðu send út í samfélagið ef til launafrystinga kæmi. Hún segir að best sé að halda friði á vinnumarkaði vegna þeirrar stöðu sem nú er komin upp, það verði eingöngu gert með því að standa við lífskjarasamninginn. Forsendur hans séu ekki brostnar.

„Það er okkar mat að það sé best fyrir efnahagslífið að standa við samninga og halda friði á vinnumarkaði,“ segir Drífa í samtali við mbl.is. Í tilkynningu frá ASÍ sem send var út nú síðdegis segir að forsendur lífskjarasamnigsins séu ekki brostnar.

Samtök atvinnulífsins sendu einnig frá sér yfirlýsingu nú síðdegis og sögðu að forsendur lífskjarasamningsins væru brostnar. Reynt hafi verið að koma á samstarfi við ASÍ en að enginn samstarfsvilji hafi verið að hálfu sambandsins.

Ekki sé þörf á að segja upp samningnum

Forsendur lífskjarasamnings voru þrjár, eins og segir í tilkynningu ASÍ.

  • Að kaupmáttur hafi aukist á samningstíma
  • Að vextir hafi lækkað fram að endurskoðun samningsins
  • Að stjórnvöld hafi staðið við gefin fyrirheit samkvæmt yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar sem gefnar voru í tengslum við samninganna

ASÍ segja að kaupmáttur hafi sannarlega aukist á samningstímanum og það um 4,8%. Sú forsenda hafi því staðist. Í örðu lagi segir í tilkynningu sambandsins að stýrivextir hafi lækkað úr 4,5% í aðeins 1% það sem af er samningstímanum og því hafi forsenda um lækkun vaxta staðist.

Að lokum segir sambandið að tímasett loforð stjórnvalda hafi staðist utan eins ákvæðis um bann við 40 ára verðtryggðum lánum. ASÍ segir þó að frumvarp sem taki á því máli sé í farvatninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert