Skot hljóp úr byssunni er hún var látin falla á gólf við prófanir

Fyrir rétti. Øivind Strand skotvopnasérfræðingur, Arvid Bjelkåsen blóðferlasérfræðingur og Tore …
Fyrir rétti. Øivind Strand skotvopnasérfræðingur, Arvid Bjelkåsen blóðferlasérfræðingur og Tore Walstad fingrafarasérfræðingur, allir frá Kripos, ræða eiginleika haglabyssunnar við Bjørn Gulstad verjanda. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Þrír sérfræðingar norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos komu fyrir Héraðsdóm Austur-Finnmerkur í Vadsø í gær og báru þar auk annars vitni um skotvopnið, sem Gunnari Jóhanni Gunnarssyni er gefið að sök að hafa beitt þegar hálfbróðir hans, Gísli Þór Þórarinsson, varð fyrir haglaskoti sem dró hann til dauða snemma morguns 27. apríl í fyrra.

Fyrir dóminn komu þeir Øivind Strand skotvopnasérfræðingur, Arvid Bjelkåsen blóðferlasérfræðingur og Tore Walstad fingrafarasérfræðingur, allir frá Kripos, en auk þess vitnaði læknir um áverkana á líkama Gísla Þórs heitins og fylgdu því myndir af Gísla örendum sem lögðust misjafnlega í viðstadda.

Galli á öryggislás

Sú niðurstaða Kripos-manna, sem óumdeilanlega má telja þungamiðju framburðar þeirra, var að galli hefði reynst á öryggislás byssunnar sem gerði það að verkum að skot hefði, samkvæmt tugum skotvopnaprófana hjá Kripos, getað hlaupið af byssunni án þess að tekið væri í gikk hennar. Tókst skotvopnasérfræðingum Kripos að hleypa skoti af byssunni með því að láta hana falla á gólf úr um það bil tuttugu sentimetra hæð. Lenti byssan á gólfinu í láréttri stöðu, en ekki með hlaupið á undan, var unnt að hleypa af henni skoti án þess að komið væri við gikkinn.

Bjørn Andre Gulstad, verjandi Gunnars Jóhanns, þráspurði þá Kripos-menn í réttarhléi út í niðurstöður þeirra og notaði súkkulaðistykki til að sýna afstöðu haglabyssunnar við fall á ímyndaðan gólfflöt.

Snörp orðasenna

Steig Torstein Lindquister saksóknari þá fram og sagði að verjanda væri óheimilt að spyrja vitni út í tæknileg atriði, sem snertu vitnisburð þeirra, í réttarhléi, það væri honum einungis heimilt fyrir settum rétti. Var Gulstad ekki sammála saksóknara og kom til snarprar orðasennu milli þeirra, ekki í fyrsta sinn síðan aðalmeðferð málsins hófst á mánudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert