Gul viðvörun vegna snjókomu og skafrennings

Spáð er slyddu um norðaustanvert landið með snjókomu á fjallvegum.
Spáð er slyddu um norðaustanvert landið með snjókomu á fjallvegum. mbl.is/RAX

Spáð er slyddu um norðaustanvert landið með snjókomu á fjallvegum og gæti færð spillst. Gul viðvörun er á Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi þar sem spáð er skafrenningi og lélegu skyggni. 

Gengur í norðvestan 15-20 metra á sekúndu með vindhviðum um 30 m/s í vindstrengjum suðaustantil á landinu eftir hádegi, þ.e. austur af Öræfum og á annesjum á Austfjörðum. Aðstæður geta verið varasamar fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi, að því er segir í athugasemd veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Léttskýjað á Suður- og Vesturlandi 

Á landinu í dag er spáð norðan 10 til 15 metrum á sekúndu en heldur hvassara í vindstrengjum suðaustantil. Él verða norðanlands, en yfirleitt léttskýjað á Suður- og Vesturlandi. Hiti verður á bilinu 0 til 7 stig. Lægir í kvöld, léttir til og frystir víða um land í nótt.

Breytileg átt verður á morgun, 5-10 m/s og að mestu bjartviðri, en skýjað með köflum norðaustanlands og stöku skúr á Suðausturlandi. Vaxandi suðaustanátt eftir hádegi, 10-18 m/s á Suður- og Vesturlandi annað kvöld.

Þykknar upp með sunnan- og vestantil seinnipartinn og fer að rigna vestast seint annað kvöld. Hiti verður í kringum frostmark í fyrramálið, en hlýnandi sunnan- og vestanlands upp úr hádegi.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is