Íslendingar jákvæðari í garð innflytjenda

Ísland er í öðru sæti listans, skammt á eftir Kanada.
Ísland er í öðru sæti listans, skammt á eftir Kanada. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jákvæðni Íslendinga í garð innflytjenda hefur aukist síðustu þrjú ár. Þetta eru niðurstöður alþjóðlegrar könnunar Gallup á innflytjendamálum í 145 löndum. Fréttablaðið greindi fyrst frá íslenskra miðla.

Þátttakendur eru spurðir um viðhorf þeirra til þriggja atriða, hversu jákvætt eða neikvætt þeir telji að innflytjendur flytji til lands þeirra, séu nágrannar þeirra og giftist inn í fjölskyldu þeirra, og fær hvert land einkunn á bilinu 0 til 9.

Ísland er í öðru sæti listans og fær einkunnina 8,41, en í könnuninni fyrir þremur árum var einkunn Íslands 8,26. Ísland missir að vísu toppsæti listans frá því síðast, en það skýrist af meiri hækkun hjá Kanada sem fær einkunnina 8,46. Næst á eftir koma Nýja-Sjáland, Ástralía, Sierra Leone, Bandaríkin, Búrkína Faso og Svíþjóð.

Minnst er jákvæðni í garð innflytjenda í ríkjum í Austur-Evrópu. Norður-Makedónar skora lægst eða 1,49 en á eftir þeim Ungverjar, Serbar, Króatar, Bosníumenn og Svartfellingar.

Á heimsvísu minnkar jákvæðni í garð innflytjenda lítillega milli ára, fellur úr 5,34 í 5,21. Mest er lækkunin hjá ríkjum í Suður-Ameríku, Perú, Ekvador og Kólumbíu, en öll hafa þau tekið við miklum fjölda flóttamanna frá Venesúela síðustu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert