Segja forsendurnar brostnar

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/​Hari

Samtök atvinnulífsins segja forsendur lífskjarasamnings brostnar og að samningsaðilar þurfi að bregðast við þeirri stöðu. Samtökin segja að þeim sé heimilt að segja upp lífskjarasamningi um komandi mánaðamót fáist verkalýðshreyfingin ekki til þess að aðlaga samninginn að „gjörbreyttri stöðu efnahagsmála.“

ASÍ er þó á öndverðum meiði og segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í tilkynningu til fjölmiðla að mikilvægt sé að halda frið á vinnumarkaði með því að standa við gerðan samning sem kveði á um „hóflegar launahækkanir.“

SA segjast hafa kynnt ASÍ viðbragðsáætlun um stöðuna á vinnumarkaði en að ASÍ hafi hafnað öllu samstarfi og hótað víðtækum verkföllum. SA segir þetta lýsa skilningsleysi samtakanna á aðstæðum í atvinnulífinu.

Forsendur brostnar og ekki áhugi á samstarfi

Allt þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu samtakanna. Þar segir einnig að SA hafi átt samtöl við forystu verkalýðshreyfingarinnar þar sem samtökin bentu á þrjá þætti.

Í fyrsta lagi hafi Hagstofa Íslands, skömmu fyrir undirritun lífskjarasamningsins, gert ráð fyrir 10,2% samfelldum hagvexti á árunum 2019 til 2022. Í júní síðastliðnum hafi Hagstofa svo spáð einungis 0,8% hagvexti á þessum fjórum árum. Þannig verði landsframleiðsla um 300 milljörðum krónum lægri árið 2021 en gert var ráð fyrir við undirritun samningsins.

SA bendir einnig á að launahækkanir, sem komið hafa til framkvæmda fyrir tilstilli lífskjarasamnings, hafi verið metnar á u.þ.b. 90 milljarða króna. Tvær hækkanir eiga eftir að koma til framkvæmda og segja samtökin ljóst að ekki séu tilfjármunir fyrir þessum hækkunum í atvinnulífinu.

Í þriðja lagi benda samtökin á að atvinnuleysi hafi verið skráð 8,5% í ágúst síðastliðnum. Þar til viðbótar hafi um 1% vinnumarkaðsins verið í skertu starfshlutfalli. Vinnumálastofnun geri síðan ráð fyrir um 9% til 10% atvinnuleysi á næstu mánuðum, sem samsvari um 20 þúsund manns.

Kynntu viðbragðsáætlun

SA segist hafa kynnt fyrir ASÍ þær leiðir sem samtökin leggi til að verði farnar til þess að laga þá stöðu sem upp er komin.

Fyrst má nefna frestun þeirra launahækkana sem lífskjarasamningurinn kveður á um. Samtökin taka þó fram að samningurinn skuli efndur en að einungis skuli fresta launahækkunum á þeim dagsetningum sem fyrir höfðu verið ákveðnar.

Samtökin segja svo að lækka beri tímabundið framlag atvinnurekenda til lífeyrissjóða. Þetta muni draga úr launakostnaði atvinnurekenda og væri um tímabundna ráðstöfun að ræða.

Í þriðja og síðasta lagi leggur SA til að fresta tímabundið endurskoðun lífskjarasamninganna. Í ljósi aðstæðna sem upp hafa komið vegna kórónuveirufaraldursins sé ekki unnt að taka „afdrifamikla ákvörðun á grundvelli mjög ófullkominna upplýsinga.“ Tilkoma bóluefnis muni gjörbreyta efnahagsforsendum næsta árs og því sé best að bíða með endurskoðun samningsins þangað til.

Skrefin framundan

SA segist ætla að boða til atkvæðagreiðslu á meðal aðildarfyrirtækja sinna um það hvort segja eigi upp lífskjarasamningnum. Sú uppsögn taki gildi þann 1. október 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert