Stærsta útboð Kópavogs

Teikning að nýjum Kársnesskóla.
Teikning að nýjum Kársnesskóla. Ljósmynd/Kópavogur

Bygging nýs Kársnesskóla við Skólagerði í Kópavogi verður boðin út á næstu vikum. Þetta segir Margrét Friðriksdóttir, formaður menntaráðs Kópavogsbæjar. Til stóð að verkið yrði boðið út í ágúst en það hefur tafist lítillega.

„Þetta verkefni er töluvert flóknara og ólíkt þeim verkefnum sem við erum vön og því tekur þetta lengri tíma í undirbúningi,“ segir Margrét. Útboðið er það stærsta sem Kópavogsbær hefur ráðist í en kostnaðaráætlun hljóðar upp á 4,5 milljarða króna.

Ákveðið hefur verið að framkvæma áhættumat sem felst í að verkfræðistofa er fengin til að yfirfara öll útboðsgögn með tilliti til hugsanlegrar áhættu sem gæti komið upp við byggingu. Gerir Margrét ráð fyrir að það taki um mánuð. Stefnt er að því að nýja byggingin verði tekin í gagnið haustið 2023.

Nýja skólabyggingin er um margt nýstárleg en hún er byggð úr timbri og verður í þokkabót svansvottuð. Verður húsið 5.750 fermetrar og mun hýsa 400 börn, bæði 1.-4. bekk Kársnesskóla en einnig leikskóla. Eldri bekkir skólans verða eftir sem áður í öðru húsnæði við Vallargerði.

Tvö ár eru síðan gamla bygging Kársnesskóla við Skólagerði var rifin, en raki og mygla höfðu um hríð plagað nemendur og kennara og var ástandið metið svo slæmt að hagkvæmara væri að byggja nýjan skóla en að ráðast í endurbætur. Eftir að hafa um tíma nýtt gamlar bæjarskrifstofur Kópavogs, var gámahúsum komið fyrir á lóð skólans við Vallagerði svo hýsa mætti alla nemendur þar til ný skólabygging rís.

Gamla skólabyggingin var rifin fyrir tveimur árum.
Gamla skólabyggingin var rifin fyrir tveimur árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is