Þórólfur laus við veiruna

Þórólfur Guðnason er fjarri góðu gamni í dag en er …
Þórólfur Guðnason er fjarri góðu gamni í dag en er laus við veiruna. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tekur ekki þátt í upplýsingafundi almannavarna og embættis landlæknis í dag þar sem hann fann fyrir kvefeinkennum. Hann fór í sýnatöku í dag en greindist hins vegar neikvæður og því ekki smitaður af veirunni. 

Frá þessu greindi Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn við upphaf upplýsingafundarins í dag. 

„Eins og fram kom þá erum við Alma hérna bara tvö. Þórólfur fann fyrir kvefeinkennum; fór í sýnatöku í morgun og er neikvæður en eins og við höfum verið að mæla með þá er fólk, ef það getur unnið heima, þá gerir það það. Og Þórólfur gat verið heima að vinna í dag. Sendum honum bestu kveðjur,“ sagði Víðir. 

Hann sagði ennfremur að smitrakning hafi almennt gengið vel.

„Það er auðvitað gríðarlegur fjöldi sem rakningateymið er í samskiptum við. Við erum með yfir fimmtíu manns að störfum núna, og það var að myndast smá hali hjá okkur sem búið er að ná utan um og við erum í góðri stöðu núna í augnablikinu.“

mbl.is