„Afleit staða“

Öll gögn benda til þess að rétt notkun hlífðarbúnaðar sé …
Öll gögn benda til þess að rétt notkun hlífðarbúnaðar sé örugg vörn gegn veirunni og almenn smitgát sömuleiðis að sögn Páls. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Þriðja bylgja Covid-19 hefur haft umtalsverð áhrif á Landspítalanum. Nú eru 35 starfsmenn í einangrun og 177 í sóttkví.

„Óhjákvæmilega hefur þetta áhrif á starfsemina og hefur dagdeild skurðlækninga (A5) og göngudeild skurðækninga (B3) í Fossvogi verið lokað vegna smita og sóttkvíar starfsfólks. Ég óska auðvitað fyrst og síðast okkar góða samstarfsfólki sem nú glímir sjálft við veiruna góðs og skjóts bata. Því miður hefur þetta umtalsverð áhrif á sjúklinga okkar líka þar sem fresta verður vissum aðgerðum sem beðið geta, þótt bráðaaðgerðum sé að sjálfsögðu sinnt og öryggi sjúklinga þar með tryggt,“ segir í pistli sem Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sem birtur hefur verið á vef sjúkrahússins. 

„Þetta er hins vegar afleit staða og minnir okkur öll á að viðhafa ítrustu smitvarnir hér í vinnunni en einnig og ekki síður utan spítalans. Að starfa í heilbrigðiskerfinu við þessar aðstæður gerir auknar kröfur til okkar almennt. Við höfum auðvitað staðið undir þeim og rúmlega það,“ skrifar Páll.

„Hvað smitvarnir varðar er ljóst að árangur okkar hefur verið góður, eins og mótefnamælingar meðal starfsfólks í sumar sýndu. Aðeins 0,25% reyndust hafa mótefni fyrir Covid-19 þó að þeir sem til rannsóknarinnar völdust hafi einmitt verið í hópi þeirra sem önnuðust Covid sjúklinga. Það er eftirtektarverður árangur. Öll gögn benda til þess að rétt notkun hlífðarbúnaðar sé örugg vörn gegn veirunni og almenn smitgát sömuleiðis. Það er því afskaplega áríðandi núna að við öll viðhöfum ítrustu smitvarnir við vinnuna okkar, í samskiptum við vinnufélaga og eins og kostur er í einkalífinu og þess bið ég ykkur lengstra orða,“ skrifar Páll efnnfremur. 

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Ljósmynd/Lögreglan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert