Eltust við „tilhæfulausar, hálfkveðnar vísur“

Víðir Reyn­is­son yf­ir­lög­regluþjónn.
Víðir Reyn­is­son yf­ir­lög­regluþjónn. mbl.is/Eggert

Ábendingarhnappurinn á vefnum covid.is, sem settur var upp um miðjan mánuðinn, hefur auðveldað vinnu lögreglu talsvert.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir í samtali við mbl.is að hnappurinn hafi verið kærkomin viðbót og komið í stað margra mismunandi leiða.

Fylgja öllum ábendingum eftir

Spurður hvort svo vilji til að stór hluti ábendinganna eigi ekki við rök að styðjast, til dæmis að fólk sjái ferðamenn og álykti hreinlega að viðkomandi hljóti að eiga að vera í sóttkví, segir Víðir:

„Það er auðvitað talsvert um það, en sömuleiðis að einhver þekkir einhvern Íslending sem hefur komið heim frá útlöndum, sér hann úti og hugsar: „Bíddu, hann á örugglega að vera í sóttkví.“ Svo kemur í ljós að það eru sjö dagar eða meira síðan hann kom heim, er því bara búinn með sóttkvína og allt í góðu lagi. En við fylgjum samt sem áður eftir öllum ábendingum.“

Betra skipulag

Sumar ábendingar séu þó ef til vill heldur óljósar.

„Þegar fólk hefur engar haldgóðar upplýsingar aðrar en að það hafi séð einhvern gangandi með tösku og viðkomandi sé örugglega nýkominn úr Leifsstöð, og önnur dæmi í þeim dúr.“

Víðir ítrekar þó að betra skipulag sé á ábendingum nú en áður, þegar þær hafi borist með ýmiss konar leiðum á borð við samfélagsmiðla og tölvupósta.

„Við erum því minna núna að eltast við tilhæfulausar, hálfkveðnar vísur, eins og við lentum oft í áður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert