Enn ekkert fundarboð komið frá stjórnvöldum

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert fundarboð hefur enn verið sent út á aðila vinnumarkaðarins til að koma til fundar við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, en í morgun var greint frá því að slíkt stæði til. Í gær greindu Samtök atvinnulífsins frá því að forsendur lífskjarasamningsins væru brostnar og að grípa þyrfti til viðeigandi ráðstafana. Hafa samtökin boðað til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sinna um uppsögn samkomulagsins. ASÍ hefur hins vegar sagt að enginn forsendubrestur sé til staðar.

Katrín sagði við Morgunblaðið í dag að þessir aðilar yrðu boðaðir til fundar til að fara yfir stöðuna sameiginlega, því það væri ljóst að það stefndi í átök á vinnumarkaðinum.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði við mbl.is að ekkert boð hefði borist henni og að hún hafi lesið fyrst um fyriráætlanirnar í fjölmiðlum í morgun. Hún bjóst þó við að fundað yrði í dag, yfir helgina eða í síðasta lagi á mánudaginn.

mbl.is