Farið af landi brott fyrir seinni skimun

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn á almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn á almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þó nokkur dæmi eru um það að fólk, sem kemur til landsins, sé farið aftur af landi brott þegar kemur að síðari skimun þess fyrir kórónuveirunni. Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.

Eftirliti með því fólki sem kemur til landsins, og hvort það fari í sóttkví á milli fyrri og seinni skimunar, sé þannig háttað að hringt sé í viðkomandi einstakling mæti hann ekki í síðari skimunina.

Mega fara í jarðarför að uppfylltum skilyrðum

„Það eru þó nokkur dæmi um að fólk sé þá þegar farið af landinu,“ segir Víðir og bætir við að í þeim hópi séu meðal annars Íslendingar sem komi til landsins til að vera við jarðarför.

„Þeir mega fara í jarðarförina að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þó þeir séu í sóttkví. Flestar kirkjurnar hafa komið upp vinnulagi í sambandi við þetta.“

Hann segir ekki mörg dæmi þess að ferðamenn komi til landsins, fari í eina skimun og séu svo farnir af landi brott þegar kemur að annarri skimun. Þeir komi hingað aðallega til að vera lengur, komi þeir yfir höfuð.

Reyndu að gera skilaboðin skarpari

Víðir segir að í sumar hafi lögregla gert stikkprufur, þ.e. hringt og talað við fólk sem komið var til landsins og athugað hvort viðkomandi séu að fylgja sóttkví. Það sé ekki gert lengur. Nú komi enda mun færri til landsins.

Hann bendir á að ráðist hafi verið í að bæta upplýsingaflæði á landamærunum eftir að í ljós kom að einhverjir ferðamenn sem komu til landsins áttuðu sig ekki á þeirri skyldu að gangast tvisvar undir skimun fyrir veirunni, með sóttkví á milli.

„Við löguðum það þegar það var svona að koma upp, og við höfum náttúrulega heyrt og séð dæmi um þetta. Við reyndum að gera þessi skilaboð skarpari og reynum áfram að tryggja að fólk skilji leiðbeiningarnar,“ segir Víðir.

Ætla ekki að vera í lögum við samfélagið

Í baráttu sem þessari hafi það sýnt sig að fólki verði að treysta.

„Í níutíu og níu komma eitthvað prósent tilvika er fólk traustsins vert. En það er í þessu eins og öllu öðru, að það eru einhverjir sem ætla ekki að vera í lögum við samfélagið. Þeir fara ekki eftir þessu og við verðum þá að reyna að grípa þá eftir ábendingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert