Landsréttur snéri við dómi yfir dagmóður

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur hefur snúið við dómi héraðsdóms í máli dagmóður sem hafði verið sakfelld fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og barnaverndarlagabrot með því að hafa á heimili sínu veist að barni, sem þá var 20 mánaða gamalt og konan gætti.

Í ákæru málsins og í dómi héraðsdóms kom fram að barnið hafi hlotið mikla maráverka og punktblæðingar á háls og aðra áverka á andliti, kinn, undi auga og á eyra. Dagmóðirin tilkynnti sjálf að barnið hefði fallið, án þess að hún hefði séð til, úr barnastól og hlotið áverkana. Hins vegar vöknuðu grunsemdir hjá lækni á bráðamóttöku að ekki væri allt með felldu og var haft samband við lögreglu þar sem áverkarnir þóttu ekki í samræmi við frásögn konunnar.

Var konan sakfelld í héraði með vísan til læknisfræðilegra gagna og réttarlæknisfræðilegrar matsgerðar um að barnið hefði ekki getað hlotið áverkana við fall úr barnastólnum.

Tveir yfirmatsmenn voru kvaddir fyrir Landsrétt til að leggja á ný mat á atvik í matsgerð dómskvadda matmannsins í héraði. Fram kom í niðurstöðu annars yfirmatsmannsins að ekki væri hægt að útiloka að áverkar barnsins hefðu komið til á þann hátt sem dagmóðirin lýsti eða að barnið hefði fallið á eða utan í barnastólinn.

Taldi Landsréttur jafnframt að rannsókn lögreglu hefði að ýmsu leyti verið ábótavant, sem gerði að verkum að örðugra væri en ella að draga ályktanir um hvað olli áverkunum. Þá hefði skoðun réttarlæknanna sem gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi einblínt um of á frásögn konunnar og hvort hún stæðist frekar en að skoða aðra möguleika. Var því ekki talið, gegn eindreginni neitun konunnar að sannað væri svo að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að konan hefði veist að barninu og veitt því áverkana. Var hún því sem fyrr segir sýknuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert