Leikskólar nánast fullmannaðir

Samkvæmt svari skóla- og frístundasviðs fá allir svar við umsóknum …
Samkvæmt svari skóla- og frístundasviðs fá allir svar við umsóknum sínum hvort sem það er jákvætt eða neikvætt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki hefur verið mikið um að skerða hafi þurft þjónustu leikskóla Reykjavíkurborgar vegna manneklu að undanförnu, en búið var að ráða í rúmlega 96% stöðugilda í leikskólunum 3. september síðastliðinn, að því er fram kemur í svari skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn mbl.is.

Þrátt fyrir það eru tíu stöður leikskólakennara eða leiðbeinenda auglýstar á starfatorgi Reykjavíkurborgar. 

Í svarinu segir að yfirlit verði næst kynnt 13. október, en að talsvert hafi verið um ráðningar frá 3. september.

Mikil fjölgun verið í umsóknum til Afleysingastofu, tilraunaverkefnis á vegum Reykjavíkurborgar þar sem reynt er að bregðast við fyrirséðum og ófyrirséðum forföllum á starfsstöðvum borgarinnar, vegna atvinnuástands í samfélaginu. 

mbl.is hefur fjallað um mál fimmtugs bresks fimm barna föðurs sem talar íslensku og hefur sótt um á leikskólum borgarinnar undanfarna tvo mánuði en fengið takmörkuð svör og ekkert starf.

Samkvæmt svari skóla- og frístundasviðs fá allir svar við umsóknum sínum hvort sem það er jákvætt eða neikvætt. Þá sé horft til margra þátta við ráðningar á leikskóla, ekki sé hægt að gefa upplýsingar um ráðningarmál einstaklinga en að fullyrða megi að hvorki kyn né aldur hafi afgerandi þýðingu í ráðningum inn í leikskólana.

mbl.is