Sammála um að Dóra hafi gengið of langt

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. mbl.is/​Hari

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks segir að ekki sé hægt að túlka bókun forsætisnefndar borgarstjórnar með öðrum hætti en svo að allir flokkar í borgarstjórn séu sammála um að fulltrúi Pírata, Dóra Björt Guðjónsdóttir, hafi gengið of langt með ummælum sínum um Eyþór Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokks, á borgarstjórnarfundi þann 15. september.

Aukafundur forsætisnefndar var haldinn í dag að ósk minnihlutans í borgarstjórn og voru ummæli Dóru rædd á fundinum. 

Í bókun forsætisnefndar segir:

Það er mikilvægt að virða siðareglur borgarstjórnar og að borgarfulltrúar gæti sanngirni í sínum málflutningi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands lýsa yfir sterkum vilja til að breyta menningunni og stuðla þannig að bættu vinnuumhverfi í borgarstjórn sem mun skila sér í betri vinnu í þágu borgarbúa.

Tengdi Eyþór við Samherja

Á fundi borgarstjórnar þann 15. September síðastliðinn lét Dóra Björt þau ummæli falla að „svo virtist sem Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks, hafi fengið fleiri hundruð milljónir að gjöf frá Samherja.“

Þá sagði hún einnig að í ljós hafi komið að Samherji stæði á bakvið uppbyggingu í miðbænum á Selfossi, sem Eyþór hefur verið um árabil talsmaður fyrir. Sagði Dóra að það gæri verið ein ástæða þess „að Samherji hefði gefið Eyþóri svo drjúga gjöf sem stór í hluti í Morgunblaðinu er.“

Samstaða þvert á flokka

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að ummæli Dóru hafi verið til umfjöllunar á aukafundi forsætisnefndar og að bókunin hafi verið gerð í kjölfar þeirrar umræðu. Það megi því túlka sem svo að forsætisnefnd sé sammála um það að Dóra hafi gengið of langt.

„Það má túlka bókun forsætisnefndar svo að nefndin sé sammála um það að fulltrúi Pírata hafi gengið of langt með ummælum sínum um Eyþór,“ segir Marta í samtali við mbl.is

„Það segir í samþykkt borgarstjórnar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar að forseti borgarstjórnar skuli víta þá fulltrúa sem bera aðra brigslum eða víki verulega frá umræðuefni fundar. Mér þykir ljóst að forsætisnefnd telji svo að Dóra hafi gengið of langt,“ segir Marta.

Hún segir einnig athygli vekja að flokkssystir Dóru í Pírötum, Alexandra Briem, skrifi undir bókun forsætisnefndar. Það megi öllum þykja ljóst að samstaðan sé þvert á alla flokka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert