Öflugir skjálftar nálægt Grímsey í nótt

Höfnin í Grímsey. Mynd úr safni.
Höfnin í Grímsey. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Þrír jarðskjálftar yfir 4 að stærð urðu norðaustan við Grímsey í nótt. Skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt varð skjálfti af stærðinni 4,3 og eftirskjálfti varð skömmu síðar af stærðinni 3,4.

Fylgdu þeir í kjölfar skjálfta af stæðinni 3,7 sem varð á svæðinu í gær. 

Rétt upp úr klukkan hálffjögur í nótt urðu síðan tveir skjálftar yfir 4 að stærð með skömmu millibili og voru þeir 4,2 og 4,3 að stærð. Þeim fylgdi skjálfti af stærðinni 3,5.

Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að stærstu skjálftarnir hafi fundist víða á Norðurlandi. Fjöldi minni eftirskjálfta mælist nú á svæðinu.

Öflug jarðskjálftahrina varð á þessum slóðum í febrúar 2018 en þá mældist stærsti skjálftinn 5,2 að stærð.

Veðurstofan bendir fólki sem býr á þekktum skjálftasvæðum á að kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert